Rauði krossinn á Íslandi styrkti í september mannúðarstarf í Úkraínu um rúmlega 36 milljónir króna. Framlagið er svar við neyðarbeiðni Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans (IFRC) vegna afleiðinga átakanna í Úkraínu. Þetta kemur fram í tilkynningu.
Styrkurinn er veittur með stuðningi utanríkisráðuneytisins og fjárframlögum frá almenningi á Íslandi.
„Átökin í Úkraínu hafa nú staðið í vel á fjórða ár og hafa á þeim tíma komið hart niður á almennum borgurum,“ segir Hrafnhildur Sverrisdóttir, verkefnastjóri í alþjóðateymi Rauða krossins.
„Innviðir í landinu hafa víða orðið fyrir miklum skemmdum og átökin því haft veruleg áhrif á aðgengi fólks að vatni, rafmagni, menntun og heilbrigðisþjónustu.“
Undir þessum kringumstæðum hefur það reynst áskorun að koma mannúðaraðstoð til þeirra sem búa á þeim svæðum sem hafa orðið hvað verst úti. IFRC hefur allt frá því átökin brutust út í upphafi árs 2022, með starfsfólk og sjálfboðaliða Rauða krossins í Úkraínu í broddi fylkingar, sinnt fólki sem oft er í mikilli neyð.
Milljónir almennra borgara hafa neyðst til að flýja Úkraínu en talið er að um 3,6 milljónir séu enn á flótta innan landsins. Starf Rauða krossins felst m.a. í því að útvega fólki mat og hreint vatn, tryggja því aðgang að hreinlætisaðstöðu, grunnheilbrigðisþjónustu og húsaskjóli. Einnig er lögð áhersla á að vernda fólk gegn ofbeldi og mismunun.
Frá því átökin hófust hefur Alþjóðasamband Rauða krossins, í samstarfi við úkraínska Rauða krossinn, veitt meira en 17 milljónum einstaklinga mannúðaraðstoð. Á sama tíma hefur Rauði krossinn á Íslandi, með dyggum stuðningi utanríkisráðuneytisins, veitt rúmlega 265,8 milljónum króna til mannúðarstarfs í Úkraínu. Einnig hefur félagið sent átta sendifulltrúa til stuðnings við neyðarviðbrögð hreyfingarinnar tengd átökunum.