Körfuknattleiksfélag ÍA hefur samið við serbneska leikstjórnandann Ilija Đoković um að leika með meistaraflokki karla út leiktíðina í Bónusdeildinni, efstu deild.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Ilija er 28 ára, 188 cm og kemur til liðsins frá sterkum liðum í Evrópu, meðal annars í Serbíu, Rúmeníu, Grikklandi og Ungverjalandi.
Hann hefur leikið 8 A-landsleiki fyrir Serbíu og á að baki fjölmarga landsleiki með yngri landsliðum Serbíu. Ilija er þekktur fyrir öflugan leikskilning, sterka vörn og yfirvegaða stjórn á leikjum.
„Við erum mjög ánægð að fá Ilija til félagsins“, segir Birkir Guðjónsson, formaður körfuknattleiksdeildar ÍA.
„Hann kemur inn með gæði, reynslu og leiðtogahæfileika sem munu styrkja hópinn verulega. Við höfum fulla trú á að hann verði mikilvægur hlekkur í liðinu og hjálpi okkur í baráttunni sem framundan er”.