Viktor Bjarki Daðason hefur samkvæmt bestu heimildum ekki miklar tengingar á Akranes – en knattspyrnumaðurinn vann afrek í vikunni sem dregur fram áhugaverða staðreynd um markaskorara í Meistaradeild Evrópu. Og þar koma Skagamenn sterkir inn. 

Viktor skoraði fyrir danska liðið FCK gegn þýska liðinu Dortmund í Meistaradeildinni á þriðjudagskvöld. Hann er yngsti leikmaðurinn frá Íslandi sem skorar í Meistaradeildinni og sá fimmti frá Íslandi sem nær að skora mark. Viktor er rétt rúmlega 17 ára en hann var áður hjá Fram. 

Tveir Skagamenn eru á þessum fámenna lista og er það athyglisvert. 

Samkvæmt frétt mbl.is kemur það fram að átján leikmenn frá Íslandi hafi leikið í Meistaradeild Evrópu í karlaflokki. 

Fimm þeirra hafa skorað. Eiður Smári Guðjohnsen skoraði 7 mörk, Skagamaðurinn Arnór Sigurðsson kemur þar næstur með 2 mörk fyrir CSKA Moskvu, annar Skagamaður, Hákon Arnar Haraldsson er með eitt mark fyrir Lille í Meistaradeildinni og Alfreð Finnbogason skoraði eitt mark á sínum ferli. Og nú hefur Viktor Bjarki Daðason bæst í hópinn.