Stefán Teitur Þórðarson hefur gengið frá samningi við þýska knattspyrnuliðið Hannover 96.

Liðið er í næst efstu deild en það hefur tvívegis fagnað meistaratitlinum í Þýskalandi, árið 1938 og 1954. Hannover 96 varð þýskur bikarmeistari árið 1992.

Heimavöllur félagsins, Heinz-von-Heiden-Arena, rúmar um 50.000 áhorfendur en leikvangurinn var byggður árið 1954. Leikið var á þessum velli á HM árið 1974 og á EM árið 1988.

Skagamaðurinn, sem er 27 ára, fór í læknisskoðun hjá þýska liðinu í lok síðustu viku. Í dag var greint frá því á heimasíðu félagsins að Stefán Teitur væri í dag leikmaður Hannover 96.

Stefán Teitur hefur leikið með enska liðinu Preston North End undanfarin ár en áður var hann hjá danska liðinu Silkeborg.

Samkvæmt fréttum frá Englandi er talið að kaupverðið sé um 140 milljónir kr. – sem er svipuð upphæð og enska liðið greiddi fyrir Stefán þegar hann var keyptur frá Silkeborg árið 2024.

Landsliðsmaðurinn hefur leikið 64 leiki með Preston en hann hefur ekki fengið mörg tækifæri hjá liðinu á undanförnum vikum og mánuðum.

Hannover er í 5. sæti næstu efstu deildar.

Skagamaðurinn Ísak Bergmann Jóhannesson leikur með Köln í efstu deild en hann var áður hjá Fortuna Düsseldorf sem leikur í næst efstu deild.