„Það er gaman og gott að finna samstöðuna hjá Skagamönnum í þessu verkefni. Þetta fór fram úr okkar björtustu vonum og við vitum að þessir fjármunir eiga eftir að nýtast til góðra verka,“ sagði Þórður Már Gylfason í dag í höfuðstöðvum Sansa á Akranesi. Alls söfnuðust tæplega 2,2 milljónir kr. í minningarsjóð Arnars Dórs.
Þórður Már afhenti ávísun sem Helga Sjöfn Jóhannesdóttir formaður ÍA tók á móti fyrir hönd þeirra félaga sem njóta munu ávaxta sjóðsins í framtíðinni.
Fyrirtæki Þórðar, Sansa, lagði til rúmlega 210 þúsund kr. í sjóðinn og eins og upphæðin gefur til kynna lögðu mörg fyrirtæki og einstaklingar lóð sín á vogarskálarnar í þessari söfnun.
Helga Sjöfn þakkaði frumkvöðlum Minningarsjóðs Arnars Dórs kærlega fyrir framtakið – og sagði að þau félög sem fengju úthlutað úr sjóðnum væru afar þakklát fyrir framtakið.
Þórður Már bætti því við að stjórn minningarsjóðsins ætlaði sér að úthluta lágum upphæðum úr sjóðnum í fyrstu – og markmiðið væri að efla Minningarsjóð Arnars Dórs enn frekar án þess að ganga á höfuðstólin.
Minningarsjóður Arnars Dórs mun styrkja þau aðildarfélög ÍA sem hann tengdist. Það eru golf, fótbolti og kraftlyftingar. Arnar Dór var mikill stuðningsmaður knattspyrnunnar, hann var á golfvellinum flesta daga og lyfti lóðum af krafti þess á milli.
Fyrir þá sem vilja leggja inn á minningarsjóð Arnars Dórs þá er þetta númerið á styrktarreikningnum:
552-14-350047
kt. 670169-2199
Úthlutunarnefnd sjóðsins er þannig skipuð;
Garðar Axelsson, Erna Valentínusdóttir, Hannibal Hauksson, Erna Hafnes, Sveinbjörn Hlöðversson, Anna María Þórðardóttir og fulltrúi íþróttabandalags ÍA.