Magnús Guðmundsson, formaður KFÍA, Heimir Fannar Gunnlaugsson, varaformaður KFÍA og Sigurður Þór Sigursteinsson, framkvæmdastjóri KFÍA voru á dögunum í heimsókn hjá Norrköping í Svíþjóð.
Markmiðið með heimsókninni var að kynna sér aðstæður hjá félaginu.
Félögin gerðu með sér samstarfssamning í fyrra og fulltrúar frá báðum félögum hafa farið í heimsóknir og kynnt sér aðstæður hjá hvoru félagi.
Skagamennirnir kynntu sér hvernig félagið Norrköping vinnur að markaðsmálum, þróunarverkefnum og að móta áætlanir til framtíðar.
Með Norrköping leika þeir Oliver Stefánsson og Ísak Bergmann Jóhannesson en þeir eru 17 og 16 ára gamlir. Arnór Sigurðsson, sonur Sigurðar Þórs framkvæmdastjóra, hóf atvinnumannaferilinn með Norrköping áður en hann var seldur til CSKA í Moskvu í Rússlandi fyrir metfé
Svíarnir eru mjög áhugasamir um samstarfið við KFÍA og hrífast þeir af því módeli sem mótað hefur verið á Skaganum síðustu ár.
Sérstaklega eru þeir hrifnir af afreksstarfi og hæfileikamótun félagsins og hvernig ungir leikmenn eru þjálfaðir í að verða betri leikmenn.
Fram kemur á heimasíðu Norrköping að uppbyggingarstarf KFÍA sé til mikillar fyrirmyndar og hefur meiri gæðastimpill en hjá félögum víða í Svíþjóð.