Kvennalandslið Íslands með opna æfingu á Akranesi fyrir stórleikinn gegn Ungverjum


Kvennalandslið Íslands undirbýr sig þessa dagana fyrir stórleik gegn Ungverjalandi í undankeppni EM 2021. Leikurinn fer fram á Laugardalsvelli kl. 18:45.

Jón Þór Hauksson er þjálfari A-landsliðs kvenna og þekkir hann því vel til aðstæðna á Akranesi. Skagamaðurinn valdi því að hafa lokaæfingu Íslands fyrir leikinn á Akranesi.

Knattspyrnufélag ÍA hvetur iðkendur og þá sem hafa áhuga á að sjá kvennalandsliðið á æfingunni að mæta.

Æfingin hefst kl. 17:00 en kl. 16:30 ætla leikmenn að hitta stuðingsmenn Íslands á öllum aldri í hátíðarsal ÍA.

Þar verður hægt að fá eiginhandaráritanir og eflaust verða símar á lofti fyrir myndatökur og slíkt.

Sigurður Þór Sigursteinsson, framkvæmdastjóri KFÍA, segir að það sé frábært fyrir Skagamenn að fá þessa heimsókn – og þá sérstaklega fyrir kvennafótboltann á Akranesi.

Skagakonan Hallbera Guðný Gísladóttir er í A-landsliði Íslands en hún lék og æfði og lék með ÍA upp alla yngri flokka félagsins. Hallbera Guðný er leikmaður Vals og hefur m.a. leikið sem atvinnumaður víðsvegar um Evrópu.