„Leggjum til að bann við rafrettum verði tekið til alvarlegar athugunar“


Ársæll Már Arnarsson hefur áhyggjur af aukinni notkun unglinga á rafrettum. Þetta kemur fram í frétt á visir.is.

Á að banna rafrettur á Íslandi?


Skagamaðurinn hefur á undanförnum árum stýrt rannsókn á heilsu og lífskjörum unglinga er gerð í 44 Evrópulöndum á fjögurra ára fresti.

Í nýrri skýrslu um heilsu og líðan grunnskólanema kemur fram að rúmlega 15% nemenda í 10. bekk á Íslandi eru hugsanlega háðir rafrettum. Góðu fréttirnar eru að 65% nemanda hafa aldrei prófað að reykja rafrettu en 20% hafa prófað af og til.

Alls svöruðu 7.159 nemendur um land allt könnuninni.

Að mati Ársæls er sorglegt að sjá svona háar tölur á meðal ungra krakka.

„15,2 prósent segjast hafa reykt rafrettur oftar en 30 daga yfir ævina og eru því hugsanlega háðir reykingunum. Þetta eru ótrúlegar tölur og eitthvað sem við þurfum að taka alvarlega. Þetta gengur þvert á allt sem við höfum verið að berjast fyrir. Það eru engar rannsóknir sem hafa sýnt fram á skaðleysi rafrettna en sífellt fleiri vísbendingar benda til þess að fólk sé að fara illa út úr þessu.“

Ársæll bendir á þá staðreynd að það sé greinilegt að rafretturnar höfði til ungmenna.

„Við leggjum til að bann við rafrettum verði tekið til alvarlegar athugunar,“ segir Ársæll.

Ársæll er prófessor við Háskóla Íslands og rannsóknastjóri. Hann er fæddur árið 1968 og ólst upp á Akranesi. Foreldrar hans eru Guðný Ársælsdóttir, fyrrum verslunarstjóri ÁTVR á Akranesi og Arnar Sigurðsson.