ÍA/Kári/Skallagrímur toppar tölfræðina í UEFA Unglingadeildinni


Sameiginlegt lið ÍA/Kára/Skallagríms í 2. flokki karla í knattspyrnu er áberandi í tölfræðisamantekt Unglingadeildar UEFA.

Liðið mætir enska meistaraliðinu Derby County á miðvikudaginn og fer leikurinn fram á Víkingsvelli i Reykjavík og hefst hann kl. 19:00. Um er að ræða fyrri leikinn í 2. umferð Evrópudeildarinnar.

Alls hafa verið leiknir 82 leikir í keppninni, sem er tvískipt, Meistaradeild og Evrópudeild (Domestic) en ÍA/Kári/Skallagrímur keppir í Evrópudeildinni

Að meðaltali hafa verið skoruð 3.5 mörk í hverjum leik. Íslandsmeistaralið ÍA/Kára/Skallagríms er í efsta sæti allra liða með 16 samtals skoruð mörk í 1. umferð (4-0 / 12-1) gegn Levadia Tallinn frá Eistlandi.

Tottenham, sem leikur í Meistaradeildinni, er með 11 mörk líkt og Inter frá Ítalíu.

ÍA/Kári/Skallagrímur er með flestar skottilraunir í keppninni eða 58 alls og 40 þeirra hafa farið á markið. Gísli Laxdal Unnarsson og Eyþór Wöhler eru í öðru sæti með flest skot á mark eða 8 skot alls.