Guðbjörg Bjartey Guðmunsdóttir fór fremst í flokki hjá öflugu sundliði ÍA sem tók þátt á Haustmóti Fjölnis nýverið. ÍA var með 21 keppenda á mótinu sem er fyrir 14 ára og yngri og var keppt í Laugardalshöll. Keppendur voru alls 375 frá 16 félögum.
Keppendurnir efnilegu frá ÍA bættu árangur sinn í 78 sundum og framfarirnar eru því miklar.
Guðbjörg Bjartey, sem er frá Bjarteyjarsandi í Hvalfjarðarsveit, bætti 15 ára gamalt Akranesmet í flokki stelpna 13-14 ára í 50 metra flugsundi. Hún kom í mark á tímanum 30,38 sek. Gamla metið átti Aþena Ragna Júlíusdóttir, 31,12 sek, sem var frá árinu 2004. Guðbjörg keppti í fjórum greinum á mótinu og sigraði í þeim öllum.
Í 4×50 boðsundi þar sem aðeins var synt skriðsund sigraði lið ÍA í stelpnaflokki á tímanum 2.06.48, með Ingibjörgu Svövu Magnusardóttur, Kareni Káradóttur, Auðui Maríu Lárusdóttur og Guðbjörgu Bjartey Guðmundsdóttur.
Strákarnir enduðu í 4. sæti í þessari grein, en sveitin var skipuð þeim Guðbjarna Sigþórssyni, Adam Agnarssyni, Bjarna Snæ Skarphéðinssyni og Vikingi Geirdal Birnusyni.
Guðbjarni fékk alls fimm verðlaun á mótinu, ein silfurverðlaun og fjögur bronsverðlaun.
Ingibjörg Svava Magnúsardóttir varð önnur í þremur greinum og þriðja í einni, þrjú silfur og eitt brons, var uppskeran á mótinu.
Karen Káradóttir varð þriðja í einni grein og fékk því bronsverðlaun.