Einar Margeir náði flottum árangri í fyrsta sundinu á HM

Skagamaðurinn Einar Margeir Ágústsson náði flottum árangri í fyrstu keppnisgrein sinni á Heimsmeistaramótinu í 25 metra laug í dag. 

HM í 25 metra laug fer fram í Búdapest í Ungverjalandi. 

Einar Margeir synti 100 metra fjórsund í morgun – og endaði hann í 20. sæti. Einar Margeir kom í mark á 54,36 sek – og er það jöfnun á hans besta árangri en hann synti á nákvæmlega sama tíma á ÍM25. 

„Ég hefði viljað komast hraðar en ég bara sáttur að hafa jafnað mitt best á mínu fyrsta alvöru stórmóti. Ég var stressaður fyrir sundið en að er eitthvað sem ég get lagað sjálfur. Ég var of spenntur í sundinu og eyddi orku í ekki neitt,“ sagði Einar Margeir m.a í viðtalinu sem er í heild sinni hér fyrir neðan.   

Einar Margeir keppir í 200 metra bringusundi á föstudaginn og verður sýnt frá því sundi á RÚV kl. 8:52. 

Skagamaðurinn Eyleifur Ísak Jóhannesson er landsliðsþjálfari Sundsambands Íslands og Kjell Wormdal yfirþjálfari ÍA er í þjálfarateymi Sundsambandsins á HM. 

Sundsamband Íslands sendir að þessu sinni 8 keppendur og hafa þeir ekki verið fleiri á Heimsmeistaramóti í sundi síðan árið 2016.

Keppendur á mótinu eru:

Birnir Freyr Hálfdánarson SH
Einar Margeir Ágústsson ÍA
Guðmundur Leó Rafnsson ÍRB
Jóhanna Elín Guðmundsdóttir SH
Símon Elías Statkevicius SH
Snorri Dagur Einarsson SH
Snæfríður Sól Jórunnardóttir Alaborg
Vala Dís Cicero SH

Á Heimsmeistaramóti í 25m laug er keppt í undanrásum að morgni í öllum greinum. Sextán bestu sundmennirnir komast í undanúrslit í 50m og 100m greinum en aðeins 8 sundmenn komast í úrslit í lengri greinum þ.e. 200m, 400m, 800m og 1500 metra sundgreinum.

RÚV sýnir frá mótinu alla morgna.