Í morgun hófst bólusetning vegna Covid-19 hjá starfsfólki í framlínu á Heilbrigðisstofnun Vesturlands. Sigurður Már Sigmarsson, sjúkraflutningamaður og Hulda Gestsdóttir, hjúkrunarfræðingur, voru þau fyrstu sem fengu bólusetningu á HVE á Vesturlandi.
Í dag fær starfsfólk HVE sem sinnir sýnatökum á Akranesi bóluefni vegna Covid-19.
Jóhannes Bergsveinsson, læknir, og Ragnheiður Björnsdóttir, yfirhjúkrunarfræðingur, sáu um fyrstu bólusetningarnar vegna Covid-19 á Akranesi – en þau sinna bæði sýnatökum á heilsugæslu HVE á Akranesi.
Á morgun, 30. desember, fá starfsmenn sem sinna sýnatökum á öðrum starfsstöðvum HVE bóluefni gegn Covid-19.
Á sama tíma verður byrjað að bólusetja heimilisfólk á Dvalarheimilinu Höfða líkt og á öðrum dvalarheimilum á Vesturlandi á starfssvæði HVE.