Magnús Guðmundsson, formaður Knattspyrnufélags ÍA, hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér í embættið á ný.
Þetta kemur fram í árskýrslu félagsins sem birt var í dag. Magnús hefur gegnt formennsku hjá Knattspyrnufélagi ÍA undanfarin sjö ár.
Hér fyrir neðan er kveðja frá Magnúsi úr árskýrslu KFÍA 2020.
Þrátt fyrir að árið 2020 hafi verið þungt í skauti vegna Covid-19 heimsfaraldursins þá eru mörg jákvæð teikn á lofti fyrir knattspyrnuna á Akranesi.
Staðan í rekstri Knattspyrnufélags ÍA er í góðu jafnvægi og allt starfið einkennist af metnaði og fagmennsku.
Það eru líka afar jákvætt að Akraneskaupstaður hefur ákveðið að auka framlög til íþróttafélaga í bænum og að hefja byggingu íþróttahúss á Jaðarsbökkum þar sem verða m.a. búningsklefar og vinnuaðstaða fyrir Knattspyrnufélag ÍA.
Framtíðin er því björt fyrir knattspyrnuna á Akranesi en áfram þarf úthald, samstöðu og þrautseigu til að ná settum markmiðum.
Eftir sjö ár sem formaður Knattspyrnufélags ÍA hefur undirritaður ákveðið að stíga til hliðar. Það hefur verið mikill heiður og ánægja að sinna starfi formanns félagsins og upp úr standa frábær kynni og samvinna við fjöldan allan af Skagamönnum með ÍA hjartað á réttum stað.
Knattspyrnufélag ÍA er magnaður klúbbur með mikla sögu sem sameinar Skagamenn nær og fjær.
Takk fyrir mig og áfram ÍA!
Magnús Guðmundsson,
fráfarandi formaður Knattspyrnufélags ÍA