Stóriðjufyrirtækin á Grundartanga greiða tæplega 18 milljarða kr. á ári fyrir raforku. Þetta kemur fram í áhugaverðum pistli sem Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness skrifar á fésbókarsíðu sinni.
Þar dregur Vilhjálmur fram þá staðreynd að Elkem á Grundartanga greiði nánast sömu upphæð í raforku og sjávarútvegurinn greiðir í auðlindagjöld – eða 4,8 milljarða kr. á ári. Norðurál á Grundartanga greiðir um 13 milljarða kr. á ári fyrir raforkuna.
Á hverjum einasta degi greiða stóriðjurnar tvær á Grundartanga tæplega 50 milljónir kr. fyrir rafmagnsnotkun – sem gerir um 2 milljónir kr. fyrir klukkutímann.
Á einum mánuði gerir þetta um 1,500 milljónir kr. og ársgrundvelli 18 milljarða eða 18 þúsund milljónir kr.
Þetta eru staðreyndir og sýnir og sannar hversu gríðarlega mikilvægur þessi iðnaður er fyrir íslenskt samfélag!
Pistill Vilhjálms er hér fyrir neðan:
Mikið hefur verið fjallað um í fréttum á liðnum dögum að allur sjávarútvegurinn sé að greiða 4,8 milljarða í auðlindagjöld fyrir afnot af sjávarauðlindinni og finnst mörgum að það sé of lítið. Ég ætla svo sem ekkert að leggja mat á það. Ég vil hinsvegar benda öllum þeim sem segja að verið sé að "gefa" stóriðjunni á Íslandi raforkuna og að þessi fyrirtæki skili „engu“ til íslensks samfélags á þá bláköldu staðreynd að „bara“ Elkem Ísland á Grundartanga greiðir nánast sömu upphæð og öll auðlindagjöld í sjávarútvegi nema eða 4,8 milljarð fyrir raforkuna. Það er einnig rétt að geta þess að Norðurál á Grundartanga greiðir nálægt 13 milljörðum á ári fyrir alla sína raforku sem er 63% meira en allur íslenskur sjávarútvegur greiðir í auðlindagjöld. Þetta eru staðreyndir og sýnir og sannar hversu gríðarlega mikilvægur þessi iðnaður er fyrir íslenskt samfélag!