Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) hefur nú hafið heilsu- og hvatningarverkefnið Hjólað í vinnuna í nítjánda sinn. Það stendur að vanda yfir í þrjár vikur eða til 25. maí. Á þeim tíma eru landsmenn hvattir til að hreyfa sig og nýta sér heilsusamlegar, umhverfisvænar og hagkvæmar samgöngur með því að hjóla, ganga eða nota annan virkan ferðamáta.
Hér á Akranesi eru íbúar hvattir til þess að taka þátt í þessu verkefni – og sameina það verkefninu „Skagamenn umhverfis jörðina“ – sem má lesa um hér fyrir neðan.
Setningin á „Hjólað í vinnuna“ fór fram í morgun við íþróttasvæði Þróttar í Laugardal.
Ávörp fluttu Sigríður Jónsdóttir, 1. varaforseti ÍSÍ, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu og sveitarstjórnarráðherra, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur og Einar Sigurjónsson, þríþrautarkappi. Öll voru þau sammála um mikilvægi verkefnisins til að hvetja landsmenn til að velja umhverfisvænan, hagkvæman og heilsusamlegan ferðamáta.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson lagði áherslu á baráttuna í loftslagsmálum og hvað gott skipulag innviða skiptir miklu máli í þeirri baráttu.
Lilja Alfreðsdóttir ræddi mikilvægi hreyfingar fyrir heilsuna og benti á hvað það eru mikil lífsgæði sem fylgja því að búa í borg þar sem auðvelt er að stunda hreyfingu utandyra daglega. Hún þakkaði ÍSÍ jafnframt fyrir þetta frábæra framtak og um leið þá vitundarvakningu sem fylgir verkefninu.
Sigurður Ingi ítrekaði hversu vel hefur gengið að byggja upp gott aðgengi fyrir hjólreiðafólk og í hans augum markar átakið sem fer nú fram í 19. sinn upphaf sumars.
Dagur B. Eggertsson benti á að enginn ferðamáti hafi vaxið jafn hratt á undanförnum árum og samgönguhjólreiðar. Hann taldi að þær ættu eftir að vaxa ennfrekar með tilkomu rafhjóla. Eitt af markmiðum Reykjavíkurborgar er að borgin verði hjólreiðaborg á heimsmælikvarða.
Einar Sigurjónsson, þríþrautarkappi kom inn á mikilvægi þess að vera með bjöllu á hjólinu, sýna tillitssemi í umferðinni, vera vingjarnlegur og umfram allt hafa gaman. Hann sagði einnig skemmtilegar sögur af sínum þríþrautarferli. Gestir setningarhátíðarinnar hjóluðu síðan verkefnið formlega af stað frá Þróttarheimilinu og tóku hring í Laugardalnum.
Hjólað í vinnuna 2021
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) hefur nú hafið heilsu- og hvatningarverkefnið Hjólað í vinnuna í nítjánda sinn. Það stendur að vanda yfir í þrjár vikur eða til 25. maí. Á þeim tíma eru landsmenn hvattir til að hreyfa sig og nýta sér heilsusamlegar, umhverfisvænar og hagkvæmar samgöngur með því að hjóla, ganga eða nota annan virkan ferðamáta.
Við þær sérstöku aðstæður sem nú ríkja í þjóðfélaginu er nauðsynlegt að huga vel að heilsunni og sinna sinni daglegu hreyfingu. Það er mjög mikilvægt fyrir vinnustaði landsins að standa vörð um starfsandann á þessum fordæmalausu tímum. Verkefnið Hjólað í vinnuna er góð leið til þess að hressa upp á stemninguna og þjappa hópnum saman. Hjólreiðar eru bæði virkur og umhverfisvænn ferðamáti og jafnframt eru þær frábær útivist, hreyfing og getur verið öflug líkamsrækt.
Í vinnustaðakeppni er fyrst og fremst keppt um flesta þátttökudaga hlutfallslega miðað við heildarfjölda starfsmanna á vinnustaðnum. Keppt er í átta keppnisflokkum út frá stærð vinnustaða. Að auki er kílómetrakeppni þar sem keppt er á milli liða um annars vegar heildarfjölda kílómetra og hins vegar hlutfall kílómetra miða við fjölda liðsmanna í liði. Líkt og á síðasta ári hvetjum við þá sem vinna heiman frá sér að byrja eða enda vinnudaginn á því að hjóla, ganga eða nýta annann virkan ferðamáta sem nemur kílómetrum til og frá vinnu. Einfaldara getur það ekki verið og allir geta tekið þátt.
Meginmarkmið Hjólað í vinnuna er að vekja athygli á virkum ferðamáta sem heilsusamlegum, umhverfisvænum og hagkvæmum samgöngumáta. Undanfarinn áratug hefur orðið gríðarleg vakning á hjólreiðum sem heilsusamlegum samgönguvalkosti. Ætla má að margir þátttakendur hafi tekið hjólreiðar upp sem lífsstíl í framhaldi af þátttöku sinni í verkefninu. ÍSÍ er stolt af því að hafa stuðlað að bættri hjólamenningu á Íslandi og orðið til þess að vinnustaðir og sveitafélög hafi bætt til muna aðstöðu fyrir hjólandi fólk.
Allar upplýsingar um Hjólað í vinnuna er að finna á www.hjoladivinnuna.is en þar má finna efni reglur keppninnar, hvatningarbréf, veggspjöld og fleira.