Þrjú hús verða reist við Grundaskóla og nýtt sem kennslustofu


Bæjarráð Akraness samþykkti á síðasta fundi sínum að heimila kaup á þremur húsum sem verða nýtt sem kennslustofur við Grundaskóla. Bæjarstjóra var falið að vinna að frekari úrvinnslu málsins. Miklar endurbætur eru framundan á húsnæði Grundaskóla eftir að rakaskemmdir komu í ljós s.l. vetur.

Ástandið er verst í elsta hluta Grundaskóla, í C-álmu þar sem að kennslurými yngstu nemenda skólans eru. Einnig eru tvö rými í B-álmu, kennslurými unglingadeildar, lokuð vegna rakaskemmda og viðamiklar viðgerðir þegar hafnar.

Fyrirhuguð er frekari umfjöllun um málið í skipulags- og umhverfisráði og sameiginlegur kynningarfundur fyrir bæjarfulltrúa þriðjudaginn 8. júní næstkomandi í aðdraganda bæjarstjórnarfundar sem verður kl. 17:00 þann sama dag.

Útgjöldunum verður mætt innan fjárfestingar- og framkvæmdaáætlunar ársins með tilfærslu verkefna. Unnið er að heildarendurskoðun áætlunarinnar sem kemur til ákvörðunar síðar í sumar.

http://localhost:8888/skagafrettir/2021/03/18/skapa-tharf-fullnaegjandi-adstaedur-til-kennslu-i-grundaskola-skyrsla-verkis-var-kynnt-i-gaer/