Viðurkenningarráð Íslensku menntaverðlaunanna hefur tilkynnt hver hljóta tilnefningu til verðlaunanna í ár. Þetta er í sjötta skipti sem verðlaunin eru veitt eftir að þau voru endurreist 2020.
Unnar Þorsteinn Bjartmarsson, kennari við Fjölbrautaskóla Vesturlands og Grunnskóla Borgarfjarðar. er tilnefndur í flokki Iðn – og verkmenntunar.

Sjá nánar hér fyrir neðan:
Iðn- og verkmenntun
Tilnefning til Íslensku menntaverðlaunanna 2025:
Unnar Þorsteinn Bjartmarsson, grunn- og framhaldsskólakennari við Grunnskóla Borgarfjarðar og Fjölbrautaskóla Vesturlands, fyrir að kveikja áhuga nemenda á iðn- og verknámi
Unnar Þorsteinn er húsasmíðameistari að mennt og lauk kennaraprófi frá Háskóla Íslands 2013. Hann hefur verið smíðakennari við Grunnskóla Borgarfjarðar í rúman áratug og verið kennari við trésmíðadeild Fjölbrautaskóla Vesturlands í sex ár. Hann er afar vel metinn af nemendum sem hafa leitað mikið til hans, jafnt á meðan þau eru í hans umsjón og eftir útskrift.
Unnar Þorsteinn hefur verið einkar duglegur að kveikja áhuga á iðnnámi hjá nemendum á öllum aldri og finna þeim verkefni sem hafa tilgang. Einnig hefur hann kynnt nemendum vélhjól og “umönnun” þeirra og verið með valtíma þar sem nemendur hafa gert upp gömul hjól. Góð þekking hans á smíði og öðrum verklegum þáttum hefur verið einstaklega dýrmæt í skólastarfinu.
Síðasta skólaár var, vegna byggingaframkvæmda, engin smíðastofa á Kleppjárnsreykjum og því þurfti hann að leita skapandi leiða í kennslunni. Lausnin var að reisa útikennslustofu sem nemendur smíðuðu; undirstöður, grind og þak.
Úr umsögn sem fylgdi tillögu um tilnefningu:
Unnar Þorsteinn hefur einstakan metnað í kennslu og leggur ríka áherslu á að nám nemenda sé merkingarbært og tengt við raunveruleikann. Unnar er með fáar en skýrar reglur í kennslustundum og starfsandinn í þeim er einstaklega jákvæður. Áhersla er lögð á að nemendur sýni metnað og virðingu og læri mikilvægi góðrar samvinnu. Nálgun Unnars gagnvart kennslunni einskorðast ekki bara við verknám heldur leggur hann mikla áherslu á tengingu þess við annað nám nemenda. Tilgangur stærðfræði og íslensku verður þannig skýrari þegar hann tengir þær greinar við verkin.