Bæjarstjórn Akraness samþykkti í gær að senda Hvalfjarðarsveit erindi þar sem lagt er til sveitarfélögin setji á laggirnar stýrihóp sem taki saman eða láti taka saman greiningu óháðs aðila á kostum og göllum þess að sveitarfélögin sameinist. Þetta kemur fram í fundargerð bæjarstjórnar.
Nýverið voru lögð fram drög að frumvarpi á Alþingi með tillögum að víðtækum breytingum á sveitarstjórnarlögum. Í frumvarpinu m.a. er gert ráð fyrir því að 10% íbúa sveitarfélaga með færri en 1000 geta farið fram á sameiningarviðræður og atkvæðagreiðslu um sameiningu sveitarfélagsins við aðliggjandi sveitarfélög. Sjá nánar hér í frétt á skagafrettir.is.

Eftirfarandi er úr fundargerð Bæjarstjórnar frá því í gær:
Bæjarráð samþykkti á fundi sínum þann 9. október 2025 að leggja til við bæjarstjórn að senda sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar formlegt erindi þar sem lagt yrði til að sveitarfélögin setji á laggirnar stýrihóp sem taki saman eða láti taka saman greiningu á kostum og göllum þess að sveitarfélögin sameinist.
Til hliðsjónar verði m.a. höfð áform stjórnvalda um breytingar varðandi samvinnu sveitarfélaga þar sem stefnt sé að því tryggja skýrari reglur um kostnaðarskiptinu sem byggi á raunkostnaði við starfsemi í hvoru/hverju sveitarfélagi fyrir sig og heimild sveitarfélags sem sinnir verkefnum fyrir annað sveitarfélag til að reikna sérstakt álag vegna veittrar þjónustu.
Bæjarráð taldi að í sameiningu sveitarfélaganna felist mikil tækifæri til að bæta enn frekar þjónustu til íbúa en úttekt/skýrslugerð/greining myndi eðli máls samkvæmt leiða fram kosti og galla þess.
Slíkri könnun þyrfti ekki að fylgja nein skuldbinding um frekari úrvinnslu en ákvörðunarvald þar að lútandi yrði alfarið í höndum hvors sveitarfélags um sig.

