Arnbjörg Stefánsdóttir, fyrrverandi skólastjóri Brekkubæjarskóla á Akranesi, er nýr formaður Skólastjórafélags Íslands. Hún tók við formennskunni á aðalfundi félagsins nýverið.  Þorsteinn Sæberg hefur gegnt formennsku í félaginu síðan 2018. Þorsteinn bauð sig ekki fram til endurkjörs.

Skólastjórafélag Íslands varð til í núverandi mynd árið 1974. Þá hét það Félag skólastjóra og yfirkennara en nafninu var breytt árið 1990 eftir að starfsheiti yfirkennara var breytt í aðstoðarskólastjóra.

Stjórn Skólastjórafélags Íslands: Álfheiður Einarsdóttir, Sævar Þór Helgason, Gróa Axelsdóttir, Arnbjörg Stefánsdóttir, María Aðalsteinsdóttir, Þormóður Logi Björnsson, Maríanna Ragnarsdóttir og Jón Páll Haraldsson.

Félagið er nú eitt af sjö aðildarfélögum Kennarasambands Íslands og eru félagsmenn um 750 talsins. Aðild að félaginu eiga skólastjórar, aðstoðarskólastjórar og deildarstjórar á grunnskólastigi, en auk þess geta starfsmenn á skólaskrifstofum sem voru í félaginu við lagabreytingu á aðalfundi 2004 og óska eftir að vera áfram í félaginu, verið það á meðan þeir gegna sama starfi.

Hlutverk félagsins er að fara með málefni félagsmanna og vinna að bættum kjörum þeirra, m.a. með gerð kjarasamninga. Auk kjaramála eru fagleg málefni og skólamál þýðingarmiklir þættir í starfi félagsins, en meðal hlutverka þess er að stuðla að umbótum í fræðslu- og uppeldismálum þjóðarinnar. Þá er eitt af hlutverkum félagsins að vinna að aukinni menntun félagsmann. Félagið gengst fyrir námstefnum sem eru hluti af endurmenntun félagsmanna.

Arnbjörg Stefánsdóttir er enginn nýgræðingur þegar kemur að Skólastjórafélaginu. Hún hefur átt sæti í stjórn SÍ frá árinu 2017 og verið varaformaður félagsins frá 2020. Hún sat einnig í skólamálanefnd SÍ á árunum 2008 til 2012, var í stjórn Skólastjórafélags Vesturlands um árabil, þar af sem formaður í tvö ár.

Arnbjörg hóf ferilinn sem grunnskólakennari árið 1994 og varð skólastjóri Hafnarskóla í Hornafirði árið 2000. Fimm árum síðar varð hún aðstoðarskólastjóri Brekkubæjarskóla á Akranesi og árið síðar tók hún við starfi skólastjóra í sama skóla. Arnbjörg hóf störf hjá Kennarasambandinu 1. ágúst síðastliðinn og vann við hlið formanns.