Bæjarráð Akraneskaupstaðar lýsir áhyggjum sínum af horfum í rekstri mikilvægra fyrirtækja á Grundartanga. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef kaupstaðarins.
Elkem mun draga úr framleiðslu tímabundið vegna markaðsaðstæðna og stór bilun varð í gær hjá Norðuráli – og ljóst er að framleiðsla á áli mun dragast saman í talsverðan tíma.

Tilkynningin er í heild sinni hér fyrir neðan:
Forsvarsmenn Elkem tilkynntu á mánudag að fyrirtækið muni draga tímabundið úr framleiðslu sinni vegna markaðsaðstæðna og enn ríkir óvissa um áform Evrópusambandsins varðandi álagningu tolla á kísiljárn.
Þá varð rekstur Norðuráls fyrir áfalli þegar spennir í verksmiðjunni bilaði og horfur eru á að framleiðsla á áli dragist verulega saman í talsverðan tíma.
Erfiðleikar þessara fyrirtækja munu hafa áhrif og bæjarráð Akraneskaupstaðar leggur áherslu á að starfsfólki og stjórnendum þeirra verði mætt af skilningi við þessar aðstæður. Trú okkar er sú að um tímabundna erfiðleika sé að ræða og fyrirtækin nái aftur fyrri styrk. Það eru miklir hagsmunir í húfi fyrir starfsfólk, fjölskyldur þeirra og byggðalagið allt.
Það er ekkert sjálfgefið í þessum heimi og við verðum á hverjum tíma að halda vöku okkar og áræðni og leitast við að vera þessum fyrirtækjum sá bakhjarl sem frekast er kostur. Akraneskaupstaður mun sem áður reyna að stuðla að því að umgjörð þessara mikilvægu fyrirtækja verði sem hagfelldust.