Eins og áður hefur komið fram á skagafrettir.is hefur eigandi Kirkjubrautar 4–6 sótt um að breyta húsnæðinu að hluta til í gistiheimili – og samþykkti skipulags – og umhverfisráð Akraness þá beiðni á fundi sínum þann 5. janúar s.l. 

Akraneskaupstaður taldi að grenndarkynning hafi farið fram með eðilegum hætti en annað kom í ljós. Alls áttu 29 kynningarbréf að fara út til hagsmunaaðila sem eru búsettir í næsta nágrenni við Kirkjubraut 4-6. Þessi bréf voru send út en þeir sem áttu að fá bréfin fengu þau ekki. 

Grenndarkynningarferlið þarf því að fara af stað á ný með fullnægjandi hætti – og fá hagsmunaaðilar tækifæri til þess að kynna sér málið og koma athugasemdum á framfæri. 

Skipulags – og umhverfisráð Akraness hafnaði þessari beiðni frá eiganda húsnæðisins í febrúar 2025 en í kjölfarið var umsókninni breytt – og sú tillaga fékk brautargengi í ráðinu.

Kirkjubraut 4-6 er í eigu Daníels Daníelssonar – en þar var Nína verslun til húsa þar til verslunin flutti í nýrra húsnæði við Kirkjubraut 12 í mars 2019.

Stefnt er að því að opna gistiheimili með allt að 8 herbergjum – og verður inngangur frá Suðurgötu inn í gistinguna.

Gengið verður inn í verslunar – og skrifstofurými frá Kirkjubraut.

Eins og staðan er á Akranesi núna þá er eitt gistiheimili í rekstri við Stillholt þar sem leyfi er fyrir 26 einstaklingum í gistingu.