Skagamaðurinn Björn Bergmann Sigurðarson hefur átt gríðarlega gott tímabil með Molde í norsku úrvalsdeildinni. Björn Bergmann er 26 ára gamall og hefur hann leikið sem atvinnumaður frá árinu 2009 þegar hann samdi við Lilleström í Noregi.
Björn Bergmann er í landsliðshópnum sem mætir Finnlandi á laugardaginn í undankeppni HM. Í myndbandinu hér fyrir neðan má sjá mörkin sem Björn hefur skorað fyrir Molde á tímabilinu. Myndbandið segir allt sem segja þarf um hæfileikana hjá þessum frábæra leikmanni sem ólst upp á Akranesi og lék með ÍA þar til hann fór í atvinnumennsku.
Á þessu tímabili hefur Björn Bergmann skorað 11 mörk í norsku úrvalsdeildinni. Hann er eftirsóttur af stórum liðum í Evrópu og hafa forráðamenn Molde hafnað nokkrum tilboðum í Björn Bergmann.