Ein stærsta tískufatakeðja Norður-Evrópu, Lindex, mun opna verslun á Akranesi í byrjun nóvember. Frá þessu er greint á fréttavefnum skessuhorn.is.
Albert Þór Magnússon umboðsaðili Lindex á Íslandi segir í viðtali við skessuhorn.is að verslunin opni 4. nóvember við Dalbraut 1 í rými á milli Krónunnar og Eymundsson.
Það húsnæði hefur staðið autt frá árinu 2008 en verið nýtt undir ýmsar sýningar á undanförnum árum. Eins og áður segir er Lindex risafyrirtæki með 500 verslanir í 16 löndum.
„Ég er óskaplega spenntur fyrir því að opna það sem ég er sannfærður um að verði glæsileg Lindex verslun hér á Akranesi. Verslun okkar á Suðurnesjum hefur gengið vonum framar og hefur hvatt okkur áfram til að taka næstu skref og er því sérlega ánægjulegt að geta kynnt þetta í dag,“ segir Albert Þór Magnússon, umboðsaðili Lindex á Íslandi í viðtali á vef Viðskiptablaðsins í dag.