„Ársreikningur Akraneskaupstaðar sýnir ábyrga fjármálastjórn og trausta fjárhagsstöðu. Ljóst er að Akraneskaupstaður hefur fulla ástæðu til þess að vera sveitarfélag í sókn.
Fjárhagsstaða bæjarins hefur styrkst með hverju ári sem líður og nú eru tvö ár í röð þar sem afkoma gefur tilefni til að auka við þjónustu, í viðhaldi innviða og frekari fjárfestinga í uppbyggingu.
Á næstu árum munum við sjá afrakstur þess en mikil uppbygging er í bæjarlandinu um þessar mundir og gefum við ekkert eftir á næstu misserum.
Guðlaug við Langasand hefur slegið í gegn, opna á frístundamiðstöð við golfvöllinn í þessum mánuði, uppbygging á fimleikahúsi er í fullum gangi og styttist í byggingu reiðhallar. Uppbygging er að hefjast á þjónustumiðstöð fyrir aldraða á Dalbrautarreit og það styttist í að niðurrif á Sementsreit ljúki og uppbygging hefjist,“ sagði Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri sem fór yfir helstu niðurstöður ársreikningsins Akraneskaupstaðar á bæjarstjórnarfundi í síðustu viku.
- Rekstrarafgangur ársins var 826 milljónir króna fyrir A- og B- hluta bæjarsjóðs.
- Skuldaviðmið samstæðu lækkar niður í 44%.
- Heildartekjur ársins hjá samstæðu voru 8,5% yfir áætlun eða 597 milljónir króna.
- Veltufé frá rekstri hjá samstæðu var 19,5% af heildartekjum eða 1.490 milljónir króna.
- Fjárfest var fyrir 563 milljónir króna á árinu.
Nánar á vef Akraneskaupstaðar.