Loading...

Í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi er boðið upp á áfanga fyrir nemendur sem hafa annað móðurmál en íslensku. Áfanginn kallast ÍSAN og sjá Sandra Y. Castillo Calle og Vilborg Bjarkadóttir um kennsluna. 

Í tilkynningu frá FVA kemur fram að í áfanganum sé  m.a. áhersla á orðaforða dagslegs lífs, talað mál og að auka sjálfstraust í að tala íslensku. Hluti námsins er að kynna sér íslenskt samfélag og sögu. 

Sandra Y. Castillo Calle er spænskukennari og sérfræðingur í að kenna íslensku sem annað tungumál og Vilborg Bjarkadóttir er myndlistarkennari og þjóðfræðingur. Nýverið fóru nemendur í safnaferð og segir Vilborg þannig frá ferðinni í grein sem birt er á samfélagsmiðlum FVA: 

„Alla leiðina til Reykjavíkur mætti okkur fögur fjalla- og sjávarsýn í gegnum bílrúður strætisvagnsins. Þegar við komum á Þjóðminjasafnið var ákveðin spenna í hópnum enda eftirvæntingin fyrir ferðinni orðin talsverð mikil, þar sem ferðin hafði verið í undirbúningi má segja alla önnina. 

Við fengum frábæra leiðsögn um grunnsýningu safnsins sem ber heitið „Þjóð verður til: Menning og samfélag í 1200 ár.“ Á þessari veigamiklu sýningu er reynt að draga upp eins skýra og heilstæða mynd af menningarsögu Íslendinga og unnt er, með því að setja muni í sögulegt samhengi í þeim tilgangi að sviðsetja söguna og gera hana ljóslifandi handa sýningargestum. Sýningin er í eðli sínu hefðbundin sögusýning þar sem Íslandsagan er rakin í réttri tímaröð frá landnámi til nútímans, en nær þó að sýna okkur það hvernig Ísland fór frá því að vera mjög einsleitt samfélag yfir í fjölmenningarlegt samfélag. 


Nemendur voru sérlega áhugasamir og spurðu fjölda spurninga og tóku ógrynni af myndum af allskonar athyglisverðum munum eins og Þórslíkneskinu, sviðsettri baðstofu, bátum, skartgripum og gömlum búningum. 

Ljóst var að ferðin var mjög vel heppnuð í alla staði og nemendur voru auðvitað algjörlega til fyrirmyndar og skólanum til sóma. Óhætt er að segja að heimsóknin hafi farið með hópinn í æsilegt tímaflakk þar sem fortíðin varpaði skemmtilegri sýn á samtímann þ.e. að hún minnir okkur á það að fortíð og nútíð eru stundum óbrotnari línur en virðist í fyrstu.“

 


Íþróttabandalag Akraness, ÍA, hélt árlegt þing bandalagsins þann 18. apríl og var þetta í 80. sinn sem ársþing ÍA fer fram. 

Helstu tíðindi af þinginu voru þau að Gyða Björk Bergþórsdóttir var kjörin nýr formaður ÍA og tekur hún við embættinu af Hrönn Ríkharðsdóttur. Gyða Björk hefur setið í stjórn ÍA frá árinu 2022.  

Þingið var ágætlega sótt 70 fulltrúar áttu rétt á setu en 42 mættu, einungis vantaði fulltrúa frá einu félagi, öll önnur sendu fulltrúa þó ekki væri full setið.

Á þinginu voru samþykktar reglur um úthlutun á lottófjármunum – og er það í fyrsta sinn í sögunni sem slíkt er gert hjá ÍA. 

Rekstrartekjur ÍA voru um 102,5 milljónir kr. á árinu 2023 og rekstrargjöld námu um 108,5 milljónum kr. Tap ársins var 4,4 milljónir kr. eftir en ársreikningur bandalagsins er hér

Hrönn fékk gullmerki ÍSÍ og gullmerki UMFÍ á þessu þingi, en þetta er í fyrsta sinn sem UMFÍ veitir gullmerki til einstaklings úr röðum ÍA. Hrönn hefur setið í stjórn ÍA frá árinu 2020 og verið formaður frá árinu 2022. 

Gestir frá UMFÍ Guðmundur Sigurbergsson og ÍSÍ Hildur Karen Aðalsteinsdóttir ávörpuðu þingið og sendu ÍA góðar kveðjur frá sínum stjórnum og starfsfólki.

Fjórir einstaklingar voru sæmdir bandalagsmerki ÍA að þessu sinni og er þeim þakkað það góða starf sem þau hafa innt af hendi í þágu íþróttamála á Akranesi. 

Berglind Helga Jóhannsdóttir – Golfklúbburinn Leynir

Halldór B. Hallgrímsson – Golfklúbburinn Leynir

Oddur Pétur Ottesen – Golfklúbburinn Leynir

Stefán Gísli Örlygsson – Skotfélag Akraness

Samfélagsskjöldur ÍA var afhentur í þriðja sinn, er hann afhentur því fyrirtæki sem stjórn ÍA velur úr þeim fjölmörgu fyrirtækjum sem styrkja og styðja við bakið á íþróttafélögum á Akranesi.

Í ár var það Vinnustofa Bjarna Þórs listamanns. Bjarni Þór hefur stutt vel við bakið á þeim íþróttafélögum sem leita til hans með gjafir í margskonar fjáraflanir. Það eru ófáar myndirnar eftir Bjarna Þór sem hanga á veggjum bæjarbúa sem happdrættisvinningar, kvennakvöld, karlakvöld eða hvað það er sem fjáröflunin heitir alltaf er hann til í að gefa af sér.

Nánar á vef ÍA. 

Emilía Halldórsdóttir var endurkjörin varaformaður, hefur hún setið í stjórn ÍA frá 2021 og gengt embætti varaformanns frá 2022. Aðrir í stjórn gáfu öll kost á sér áfram. 


Það er kraftur í starfi Pílufélags Akraness þrátt fyrir að félagsmenn æfi í bráðabirgðaaðstöðu við Mánabraut á meðan íþróttahúsið við Vesturgötu er lokað. 

Alls eru þrjú lið frá Pílufélagi Akraness sem taka þátt í deildarkeppni Pílufélags Íslands – og nýverið tóku öll þrjú lið PFA þátt á sama tíma í aðstöðu Pílufélags Reykjavíkur á Tangarhöfða.  

Flórídaskaginn (PFA) er í baráttunni um verðlaunasæti í efstu deild – A-deild. Skaginn (PFA) hefur tryggt sér sigur í B-deild og nýliðarnir Tertium Equos (PFA) eru í baráttu um að komast upp í A-deild á næsta tímabili. 

Á þessu keppniskvöldi höfðu öll liðin frá PFA betur í sínum viðureignum – með sama stigafjölda 11-3. 

 


Sundfólk úr röðum ÍA náði frábærum árangri á Íslands – og unglingameistaramótinu sem fram fór í Laugardalslaug um s.l. helgi. Keppt var í 50 metra laug og voru alls 183 keppendur frá 16 félögum. ÍA var með 10 keppendur, og uppskeran var góð. Íslandsmeistaratitill, fjögur silfur og 15 bronsverðlaun.

Einar Margeir Ágústsson, Íþróttamaður Akraness 2023, landaði Íslandsmeistaratitli í 50 m skriðsundi. Einar vann einnig silfur í 50 m bringusundi og 50 m flugsundi.

Guðbjörg Bjartey Guðmundsdóttir vann silfur í 50 m flugsundi og brons í 100 m skriðsundi.

Guðbjarni Sigþórsson náði bronsi í 50m skriðsundi bæði í fullorðins og unglingaflokki. Í 200 m skriðsundi varð hann í þriðja sæti í unglingaflokki.

Í 100m skriðsundi setti hann nýtt Akranesmet í unglingaflokki þegar hann synti á 53,90, gamla metið átti Kristján Magnússon á 53,99 frá því í fyrra.

Sunna Arnfinnsdóttir vann til fjölda verðlauna í bæði fullorðins og unglingaflokki. Hún vann silfur í 200m flugsundi og brons í 100m og 200m baksundi ásamt 400m fjórsundi.

Í unglingaflokki vann hún silfur í 200 m fjórsundi og brons í; 200 m flugsundi, 400 m fjórsundi, 100 m og 200 m baksundi

Kajus Jatautas synti sitt fyrsta úrslitasund á Íslandsmeistaramóti þegar hann komst í úrslit í 50 m og 100m baksundi.

Ingibjörg Svava synti góð sund um helgina og það sérstaklega í 50 m baksundi og 50 m skriðsundi þar sem hún bætti sig verulega.

Sunna Dís Skarphéðinsdóttir stóð sig vel og bætti sig í tveim af þrem sundum og þriðja sundið synti hún á nákvæmlega sama tíma og hún átti.

Karen Anna Orlita gerði mjög gott á sínu fyrsta Íslandsmeistaramóti og bæti sig í öllum þremur greinum.
.
Viktoria Emilia átti góða helgi í skriðsundi með flottum bætingum, sérstaklega í 50m og 100m skriðsundi.

Í boðsundum vann ÍA til tvennra bronsverðlauna hjá strákunum, 4x100m skriðsund og 4x100m fjórsundi.

Liðið skipuðu þeir Kajus Jatautas, Guðbjarni Sigþórsson, Einar Margeir Ágústsson og Kristján Magnússon.

Stelpurnar voru í fjórða sæti í 4×100 skriðsundi og 6. sæti í 4×100 fjórsundi og það voru þær Viktoria Emilia Orlita, Ingibjörg Svava Magnúsardóttir, Sunna Arnfinnsdóttir og Guðbjörg Bjartey Guðmundsdóttir


Karlalið ÍA landaði góðum sigri gegn HK í gær í Bestu deildinni, Íslandsmótsins í knattspyrnu. Liðin áttust við í Kórnum í Kópavogi og var þetta annar leikur liðanna á tímabilinu. 

Staðan var jöfn í hálfleik, 0-0, en í síðari hálfleik fóru Skagamenn á kostum og skoruðu fjögur mörk. Arnór Smárason kom ÍA yfir á 52. mínútu og þá tók framherjinn Viktor Jónsson við keflinu – og skoraði hann næstu þrjú mörk ÍA. 

Viktor er markahæsti leikmaður deildarinnar með 3 mörk eftir 2 umferðir. 

Nánar um liðsuppstillingu og gang leiksins hér í leikskýrslu KSÍ. 

ÍA er í 4. sæti deildarinnar. Næsti leikur liðsins fer fram á Akranesi 24. apríl þegar Fylkir kemur í heimsókn. 


Nú nýverið var skrifað undir samning þar sem að fasteignasölurnar Domusnova og Fasteignamiðlun Vesturland eða FastVest sameina krafta sína. Þetta kemur fram í tilkynningu. 

Fasteignasölurnar verða fyrst um sinn reknar í nafni beggja aðila og mun sameinuð starfsemi verða staðsett í útibúi að Kirkjubraut 40 og Esjubraut 49 fyrst um sinn.

FastVest á sér yfir 30 ára farsæla sögu á Akranesi, fasteignasalan var stofnuð af Soffíu Sóleyju Magnúsdóttur árið 1993 og hefur hún allar götur síðan séð um rekstur fasteignasölunnar. Á síðustu árum hefur dóttir Soffíu, hún Ragnheiður Rún Gísladóttir fasteignasali verið hægri hönd Soffíu.
Domusnova Fasteignasala er ein af stærri fasteignasölum landsins, með höfuðstöðvar í Kópavogi og auk útibús á Akranesi hefur Domusnova starfrækt útibú á Selfossi.

Þær mæðgur Ragnheiður og Soffía munu verða í fararbroddi sameinaðra fasteignasala og munu þær einbeita sér að því að bjóða Akurnesingum og nærsveitabyggðum góða og faglega þjónustu hér eftir sem endra nær og nýta sér í leiðinni gæðastaðla Domusnova Fasteignasölu við verk sín.


Aðsend grein frá Guðrúnu Karls Helgudóttur, sem er frambjóðandi til biskups.

Eitt aðaleinkenni þjóðkirkjunnar, kirkju þjóðarinnar er hún að hún hefur þá grunnskyldu að veita kirkjulega þjónustu um allt land. Henni ber að þjóna fólki í sveit og borg, í þorpum og bæjum, þeim sem búa afskekkt og þeim sem búa þétt. Þetta er ekki einfalt hlutverk því þegar upp er staðið er það fjárhagurinn sem stýrir því hversu breið og öflug sú þjónusta er. Sóknargjöldin sem ríkið innheimtir fyrir þjóðkirkjuna hafa verið skert af hálfu ríkisins frá því í hruninu og jafnvel eitthvað fyrr. Þetta hefur gert það að verkum að erfiðara er að halda úti þjónustu safnaða og halda við kirkjubyggingum sem margar hver eru menningarleg þjóðarverðmæti. Þá hefur vígð þjónusta verið skert þar sem kirkjan hefur þurft að fara í sparnaðaraðgerðir auk þess sem fólksflutningar hafa orðið á ákveðnum svæðum.

Staða safnaðanna í landinu er afar mismunandi og hinir vígðu þjónar, prestar og djáknar búa við ólíkar aðstæður mörgu leyti. Prestar sem þjóna á landssvæðum þar sem þarf að aka um, fjallvegi til þess að annast guðsþjónustu, sálgæslu, safnaðarstarf eða kirkjulega athöfn búa við erfiðari aðstæður en prestar sem vart þurfa að fara úr húsi til þess að annast allt sitt starf. Á nokkrum stöðum eru vegalengdir slíkar innan prestakalls að ein skírn getur tekið allt að fjórar klukkustundir þegar akstur er tekinn með. Kirkja sem býður upp á þjónustu á svo ólíkum stöðum getur ekki boðið upp á samskonar þjónustu alls staðar en hún verður að huga að því að allir þjónar kirkjunnar búi við kjör sem gera það eftirsóknarvert að vilja starfa í Þjóðkirkjunni hvar sem er á landinu.

Vígð þjónusta á landsbyggðinni þarf að vera jafn aðlaðandi og samskonar þjónusta á höfuðborgarsvæðinu sem þýðir að kirkjan þarf að fara að huga að því að skoða kjaramál presta eftir því í hvaða landshlutum þeir þjóna. Á ákveðnum stöðum á landinu hefur þjónustuskerðingin orðið með þeim hætti að prestarnir eru sífellt að troða marvaðann eingöngu til þess að svara lágmarkskalli sóknarbarna. Þessir sömu prestar eiga erfitt með að taka fullt sumarleyfi, hvað þá samfellt. Við þurfum aðeins að líta til landanna í kringum okkur s.s. til Svíþjóðar eða Noregs til þess að skoða hvaða leiðir kirkjurnar þar hafa farið í þessum málum. Í þessum löndum hefur verið komið til móts við vígða þjóna á afskekktari stöðum með ýmsum hætti s.s. með auknum leyfum og afleysingu. Þá verður kirkjan að endurskoða þjónustu sína reglulega um allt land til þess að koma til móts við þjónustuþörf og aðstæður síns starfsfólks. Þetta eru leiðir sem ég tel að við verðum að skoða alvarlega því ég vil leiða kirkju þar sem metur allt sitt starfsfólk að verðleikum og hlúir að því.

Þá þarf kirkjan að sækja það fast að ríkið skili sóknargjöldunum til safnaðanna og festa þau í sessi svo að við getum farið að þjóna Guði og fólki eins og við erum kölluð til á landinu öllu. Þá er hægt að fara fleiri leiðir til þess að hjálpa litlum sóknum sérstaklega og þar má m.a. nefna þann möguleika að skrá söfnuðinn á almannaheilaskrá og gefa þannig fólki kost á að styrkja kirkjuna sína og fá það að hluta til baka sem lækkun á skattstofni. Sjálfsagt er að skoða hvort fólk geti valið að ská sig sérstaklega í allra minnstu sóknirnar og þannig látið sóknargjöldin sín renna þangað. Þá er ekki síður mikilvægt að reyna að fjölga meðlimum í Þjóðkirkjunni og með sérstöku þjóðkirkjuátaki. Einn liður í því er að reyna að koma því um kring að skírnin verði sjálfkrafa skráning í Þjóðkirkjuna. Mikilvægast af öllur er þó að kirkjan haldi áfram að gera sig gildandi sem öflug fjöldahreyfing sem býr yfir ótrúlega miklum mannauði og hæfileikum, en ekki síður erindi sem við hér inni vitum öll að skiptir öllu lífsins máli, það er fagnaðarerindið sjálft.

Kirkja í sókn tekur hlutverk sitt alvarlega, er fagleg í þjónustu sinni jafnt í söfnuðum sem og í sérþjónustu og hlúir vel að öllum sínum þjónum, starfsfólki og sóknarnefndarfólki. Kirkja í sókn er sýnileg því hún er stolt af erindi sínu, fagnaðarerindinu sjálfu. Þetta er sú kirkja sem ég mun veita forystu verði ég kjörin biskup Íslands.


Aðsend grein frá miðbæjarsamtökunum Akratorg: 

Miðbæjarsamtökin þakka fyrir góðar viðtökur vegna átaksins “Fyrsta hjálp fyrir miðbæinn” og bjóða bæjarbúum til íbúafundar í Tónbergi mánudaginn 15. apríl klukkan 20.00. (húsið opnar kl. 19.00 og við bjóðum upp á kaffi og kleinur.

Bæjarstjóri og bæjarstjórn hafa sagt: Gamla Landsbakahúsið við Akratorg hentar ekki sem ráðhús. Við spyrjum; Hvers vegna ekki? Formaður bæjarráðs sagði á dögunum að það væri búið að gera úttekt á húsinu tvisvar ef ekki þrisvar með ráðhús í huga og útkoman hafi alltaf verið sú sama: Gengur ekki. Við höfum óskað eftir að fá að sjá gögn sem styðja orð formannsins fyrir fundinn.

Það er eitt að langa ekki að gera eitthvað en annað að komast alls ekki vegna ófærðar. Við teljum að í þessu tilfelli sé ekki ófært heldur einfaldlega ekki vilji.

Málefnasamningur Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks vegna meirihlutasamstarfs í bæjarstjórn Akraness kjörtímabilið 2022 – 2026 hefst á þessum orðum:
„Leitast verður við að eiga gott samstarf við alla flokka í bæjarstjórn og að stjórnsýslan snúist um að veita íbúunum góða þjónustu með hagsmuni þeirra að leiðarljósi. Lögð verður áhersla á gott samstarf við íbúa og áframhaldandi uppbyggingu og þróun á virku íbúalýðræði. Áfram verður unnið að því að styrkja fjárhagsstöðu bæjarsjóðs“.

Hér eru svo nokkur atriði úr samningnum:

* Gera framtíðaráætlun varðandi húsnæði stjórnsýslunnar.
* Gera framtíðaráætlun um skipulag miðbæjarins í góðu samtali við íbúa.
* Virkja og efla miðbæinn í virku samtali við íbúa.
* Horfa ávallt til lýðheilsusjónarmiða í skipulagi nýrra hverfa og við þéttingu byggðar í eldri hverfum bæjarins.
*Sinna vel viðhaldi á eignum bæjarins og gera viðhaldsáætlanir sem eru sýnilegar öllum.

Allt smellpassar þetta við trú okkar í Miðbæjarsamtökunum á því að gamla Landsbankahúsið við Akratorg geti hentað mjög vel sem ráðhús – ef vilji er fyrir því. Það gæti þar að auki gæti hýst lítinn veitingastað sem gæti sinnt þörfum bæði starfsfólks og gesta.

Við teljum að þetta sé góð hugmynd og hagkvæm á margan hátt í ljósi stöðunnar hjá okkur á Akranesi í dag:

Það vantar líf í miðbæinn – það er aðalatriði málsins. Við tölum um FYRSTU HJÁLP og þetta yrði táknrænt fyrsta skref.

Það vantar húsnæði undir starfsemi bæjarskrifstofu og til stendur að innrétta leiguhúsnæði fyrir hlusta af starfseminni.

Við eigum ekkert ráðhús.

Húsið sem um ræðir stendur á fullkomnum stað fyrir ráðhús – þar sem flest ráðhús standa í heiminum. Við miðbæjartorgið.

Við Akurnesingar eigum þetta glæsilega 1400 fm hús við Akratorg sem vill vera ráðhús.

Fermetraverð í byggingu opinbers húsnæðis er 1200-1400 þúsund í dag segja sérfræðingar sem við höfum talað við. 1400fm x 1200 þús = 1.680 milljónir.

Bæjaryfirvöld vilja losna við húsið og selja það lekt og laskað. Hvað eru verktakar tilbúnir að borga fyrir það eins og það er í dag? Verður það svo kannski rifið á endanum?

Þegar búið er að gera húsið upp má selja það fyrir toppverð síðar ef draumur um nýtt og stærra ráðhús lifir þessa og næstu bæjarstjórnir.

Húsið er ein merkasta bygging Akurnesinga að margra mati, teiknað af Skagamanni og vel byggt af Skagamönnum – Guðmundi Magnússyni og hans mönnum – vandað í alla staði.

Það er hægt að hreinsa innan úr því og innrétta í takt við nýja tíma og Arkítektinn búinn að gefa grænt ljós á það í viðtali við Miðbæjarsamtökin sem finna má á Youtube.

Húsið er hannað fyrir skrifstofustarfsemi og móttöku fólks.

Húsið yrði loksins upplýst og líflegt en ekki eins og draugahús í hjarta bæjarins.

Umhverfisvænasta húsið er alltaf húsið sem stendur.

Það er í takt við nýja tíma hvað varðar umhverfismál og alltaf ódýrara að laga gamalt hús en byggja nýtt. Þess vegna rífum við ekki húsin okkar og byggjum ný. Akraneskaupstaður er við – og við borgum fyrir það sem er gert.

45 manna vinnustaður við Akratorg, fólksins sem stjórnar bænum mun óhjákvæmilega setja aukið líf í miðbæinn. Eða hvað?

Stjórnarfólk um miðbæjarsamtökunum mun opna fundinn.

Páll Jakob Líndal umhverfissálfræðingur sem er fastur pistlahöfundur í Samfélaginu í nærmynd á Rás 1 talar um miðbæinn, umhverfissálfræði, arkítektúr, byggingar, umhverfismál ofl.

Fundargestum býðst að spyrja kjörna bæjarfulltrúa spurninga – en þeim bjóðum við sérstaklega til fundarins til að fá þeirra sýn á miðbæjar og ráðhúsmál í pallborði sem Bjarnheiður Hallsdóttir stýrir.

Skagafólkið Benedikt Kristjánsson tenor – Jonfri, Hulda Gestsdóttir, Lárus Sighvatsson og fleiri munu spila og syngja fyrir fundargesti.

Við afhendum bæjarstjóra formlega undirskriftalistana sem legið hafa víðsvegar um bæinn undanfarið og á island.is.

Við endum líka uppboðið á mynd Bjarna Þórs sem hann gaf til styrktar Akratorgi og átakinu. Tilboð sendist á [email protected] og sama netfang gildir fyrir spurningar fyrir miðbæjarsamtökin eða bæjarstjórn

Fundarstjóri verður Gísli Gíslason fyrrverandi bæjarstjóri á Akranesi.

Verið öll velkomin og fyllum Tónberg!

Við í Miðbæjarsamtökunum Akratorg höfum hvatt bæjaryfirvöld til að skoða af alvöru hvort gamla landsbankahúsið gæti orðið ráðhús okkar Akurnesinga. Kannski munu bæjaryfirvöld sannfæra okkur um að hugmyndin sé vonlaus og þau segja okkur frá framtíðarsýn sinni sem pakkar okkar saman þannig að hún veðrur aldrei rædd meir – en kannski skipta þau um skoðun? Það er heilbrigt að geta skipt um skoðun og við erum opin fyrir öllum góðum hugmyndum.

RÁÐHÚS Á AKRATORG – MEIRA STUÐ FYRIR MINNI PENING – EKKI VERA ALVEG SAMA!


Líf Lárusdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Akraness, verður í leyfi frá störfum sínum frá og með 22. apríl 2024 til 25. febrúar á næsta ári.

Þetta kemur fram í fundargerð bæjarstjórnar frá 9. apríl. Líf á von á barni og kemur hún til starfa á ný eftir orlofið.

Þórður Guðjónsson, sem skipaði fimmta sætið á framboðslistanum í síðustu kosningum verður aðalbæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Guðmundur Júlíusson verður varabæjarfulltrúi í stað Þórðar.

Líf hefur gegnt formennsku í bæjarráði frá síðustu kosningum – og mun Einar Brandsson taka við formennskunni, og Guðmundur Ingþór Guðjónsson, kemur inn sem varamaður í stað Einars.


Forvarnadagur fyrir nemendur í Fjölbrautaskóla Vesturlands Akranesi, FVA, fór fram þann 9. apríl.

Að deginum stóðu Framhaldsskóli Vesturlands (FVA), Slökkvilið Akraness og Hvalfjarðarsveitar, Neyðarlínan 112, Lögreglan á Vesturlandi, Heilbrigðisstofnun Vesturlands og Samgöngustofa.

Þar fluttu fulltrúar frá Samgöngustofu og lögreglunni á Vesturlandi erindi fyrir nemendur um þá áhættuþætti sem snúa að ungum ökumönnum.

Að þeim loknum fengu nemendur að heyra dæmi um 1-1-2 símtal tengt umferðarslysi og í kjölfarið var sviðsett umferðarslys þar sem nemendur fengu að fylgjast með starfi viðbragðsaðila á vettvangi viðkomandi slyss.

Bjarklind Björk Gunnarsdóttir hjá Samgöngustofu segir að reynslan sýni að slíkir dagar hafi mikil áhrif á umferðaröryggi ungs fólks.

„Hér fá þau að heyra og sjá afleiðingar umferðarslysa og fá að kynnast hvað þau geta gert til að draga úr líkum á slysum. Auk þess er skemmtilegt að brjóta upp hversdagsleikann með degi sem þessum og ekki er verra ef dagurinn endar á grilluðum pylsum,“ segir Bjarklind.


Ágústa Rósa Andrésdóttir er nýr forstöðumaður íþróttamannvirkja á Akranesi.

Ágústa Rósa er frá Akranesi og hefur m.a. verið formaður karatefélags Akraness, setið í stjórn badmintfélags Akraness og í framkvæmdastjórn Íþróttabandalags Akraness. Ágústa hefur starfað sem æskulýðsfulltrúi í Hvalfjarðarsveit, og nú síðast sem  Forstöðumaður Frístundasels Lágafellsskóla í Mosfellsbæ.

Bæjarstjórn Akraness samþykkti ráðningu Ágústu á síðasta bæjarstjórnarfundi. Alls sóttu 17 manns um starfið. Hörður Kári Jóhannesson hefur verið forstöðumaður íþróttamannvirkja á Akranes og var honum þökkuð góð störf á bæjarstjórnarfundinu.

Ágústa er fædd árið 1971 og hún er gift Herði Svavarssyni rafvirkja og þau eiga þrjú börn, Andrés Má,  Aðalheiði Rósu og
Ólaf Elías.

Ágústa Rósa Andrésdóttir.

 

Eftirtaldir sóttu um starfið:

Ágústa Rósa Andrésdóttir
Baldvin Bjarki Baldvinsson
Daisy Heimisdóttir
Ellert Baldur Magnússon
Eyrún Ída Guðjónsdóttir
Finnbogi Rafn Gudmundsson
Guðbjartur Máni Gíslason
Helena Rúnarsdóttir
Helgi Magnússon
Indriði Jósafatsson
Ingimar Elí Hlynsson
Magnús Gísli Sveinsson
Óli Þór Júlíusson
Pétur V. Georgsson
Ragnheiður Smáradóttir
Sturlaugur Sturlaugsson
Valdimar Leó Friðriksson


Eva Björg Ægis­dóttir frá Akranesi fékk í dag afhent spennu­sagna­verð­launin Svart­fuglinn fyrir bókina Marrið í stiganum.

Eliza Reid, forsetafrú, af­henti verðlaunin.

 

Yrsa Sigurðar­dóttir og Ragnar Jónas­son eru hug­mynda­fræðingarnir að baki verð­laununum sem ætluð eru höfundum sem ekki hafa áður sent frá sér glæpa­sögu. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Eva er eins og áður segir frá Akranesi en foreldrar hennar eru Ægir Jóhannsson og Sigríður Björk Kristinsdóttir.




Í áliti dómnefndar um bókina segir meðal annars: „Sagan er grípandi og spennandi samhliða því að veita innsýn í myrkan og sáran veruleika. Fléttan er fagmannlega unnin, söguþráðurinn sterkur og sögulokin koma lesandanum á óvart.“

Verðlaunin nema 500.000 krónum auk hefðbundinna höfundarlauna. Sigurvegaranum býðst einnig samningur við umboðsmanninn David H. Headley en tímaritið Bookseller útnefndi hann sem einn af 100 áhrifamestu mönnum breskrar bókaútgáfu árið 2015.

Eva er með MSc gráðu í alþjóðamálum frá Tækniháskólanum í Þrándheimi og BA gráðu í félagsfræði frá Háskóla Íslands. Hún starfar hjá fyrirtækinu Maskína en hún hefur einnig starfað á þróunarsviði VÍS tryggingafélags, verið aðstoðamaður við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og sem starfsmaður á alþjóðasviði hjá utanríkisráðuneytinu í Noregi. Þá hefur hún starfað sem fyrsta flugfreyja hjá flugfélaginu Wow Air.




Skagafrettir.is hefur frá upphafi verið opinn fréttavefur og markmiðið er að halda áfram á þeirri vegferð.  

Áhugi á efninu er til staðar. Mörg þúsund heimsóknir á hverjum degi á skagafrettir.is staðfestir að lesendur hafa áhuga á jákvæðum fréttum úr nærsamfélaginu.

Þú kæri lesandi getur tekið þátt í að efla fréttavefinn skagafrettir.is með þínu framlagi. Slíkur stuðningur er afar mikilvægur fyrir bæjarfréttamiðla.

Það er hart sótt að bæjar - og staðarfréttamiðlum á Íslandi - og slíkir miðlar eru í raunverulegri útrýmingarhættu. 

Skagafréttir fóru í loftið í nóvember 2016 og frá þeim tíma hafa vel á fjórða þúsund fréttir verið skrifaðar á skagafrettir.is.

Skagafréttir ehf.
552-26-11875
440219-0550

Frjáls framlög frá lesendum eru styrkasta stoðin í rekstri Skagafrétta. Slíkur stuðningur er afar mikilvægur og hvatning til að halda áfram að miðla því öllu því jákvæða sem er í gangi á Akranesi og hjá Skagamönnum nær og fjær.

Frjáls framlög gefa jákvæða strauma og kraftmeiri fréttaflutning.


Skagafréttir ehf.
552-26-11875
440219-0550

Kærar þakkir fyrir allar heimsóknirnar á skagafrettir.is og stuðninginn.


Skagafréttir ehf.
552-26-11875
440219-0550

http://localhost:8888/skagafrettir/2021/03/18/baejarmidlarnir-eru-i-raunverulegri-utrymingarhaettu/


Ungir og efnilegir leikarar með sterka tengingu á Akranes leika stórt hlutverk í nýrri kvikmynd sem frumsýnd verður þann 23. mars 2018. Myndin heitir Víti í Vestmannaeyjum og er fjölskyldumynd með vísun í sannsögulega atburði. Viktor Benóný Benediktsson, 12 ára, og Theodór Ingi Óskarsson, 11 ára, fengu að upplifa það að leika í þessari mynd og skagafrettir.is fékk þá félaga til þess að segja aðeins frá þeirra upplifun. Stiklu úr myndinni má sjá hér neðst í fréttinni.

Myndin verður að sjálfsögðu sýnd í Bíóhöllinni á Akranesi, laugardaginn 24.  mars og sunnudaginn 25. mars.

Viktor og Theodór ætla sér að lesa meira en þeir hafa gert áður og leiklistinn hefur svo sannarlega fangað athygli þeirra.

Theodór og Viktor

Nafn: Viktor Benóný Benediktsson.

Aldur: 12 ára.
Skóli: Breiðagerðisskóli.
Bekkur: 7 bekkur.
Besti maturinn: Hamborgarahryggur og Sushi.
Besti drykkurinn: Vatn.
Besta lagið/tónlistin. Michael Jackson – Beat It.
Á hvað ertu að horfa þessa dagana? (sjónvarpsþættir)
Stranger things 2 og Friends.

 

Ættartréð:
Benedikt Steinar Benónýsson er pabbi minn og Íris Dögg H Marteinsdóttir er stjúpmamma mín, og systkini mín eru þau Tindur Marinó (5 ára) og Hafrún Embla (11 ára).
Auður Valdís Grétarsdóttir er mamma mín og stjúppabbi minn er Guðmundur Ingiberg Arnarsson, og systkini mín eru Elmar Benvý (4 ára) og Arnar Levý (6 ára). Og ekki má gleyma ömmu minni sem heitir Hulda Jónína Jónsdóttir

Theodór ásamt systkinum sínum.


Hvernig kom það til að þú fékkst hlutverk í myndinni?

„Ég mætti í nokkrar prufur fyrir myndina, mamma sá auglýsingu fyrir prufurnar á Facebook.“

Hefur þú leikið áður í kvikmynd?
„Já, en oftast bara í aukahlutverkum og í þáttum. T.d. Fyrir framan annað fólk og Loforði.“

Hefur þú áhuga á leiklist?
„Já mjög mikinn áhuga, ég ætlaði að verða lögga þegar ég yrði stór. En svo kynntist ég kvikmyndaheiminum og fann að þetta var ætlað mér.“

Ertu að æfa fótbolta og með hvaða liði þá?
„Nei, ég æfði fótbolta en er í pásu. Æfi í dag Handbolta með Víkingi og er markmaður.“


Framtíðardraumar þínir, hverjir eru þeir?

„Að það komi stjarna með nafninu mínu á Hollywood Boulevard.“

Hvað er það eftirminnilegasta sem gerðist við tökurnar á myndinni?
„Þegar var fyrsti tökudagurinn í Eyjum og það var brjálað veður.“

Hvert er vandræðalegasta atvikið sem gerðist við tökurnar á myndinni?
„Þegar ég fékk hiksta í miðri töku.“

Hvaða áhugamál hefur þú fyrir utan leiklist og fótbolta?
„Vinir mínir og snjóbretti.“

Lestu mikið, bækur og slíkt?
„Nei, en ég er að bæta mig í því.“

Hefur þú lesið aðrar bækur sem eru eftir höfundinn á Víti í Vestmannaeyjum?
„Já, Amma er Best (mæli með henni ;).“

Langar þig að taka þátt í fleiri slíkum kvikmyndaverkefnum?
„Auðvitað, ef þið viljið fá mig í verkefni hringið þá í mig.“

ÍA og Akranes, hvernig er tengingin þín?
„Ég fæddist á Akranesi og kom reglulega til pabba á Akranes. Ég var líka mikið í sveitinni hjá ömmu og afa. Ég var mjög ungur þegar ég átti heima á Akranesi en man mjög vel eftir því þegar eg fór á Langasand hjá Fríðu frænku og man líka þegar ég fór í Jaðarsbakkalaug með afa það var mjög skemmtilegt.“

Nafn: Theodór Ingi Óskarsson.

Aldur: 11 ára.
Skóli: Norðlingaskóli.
Bekkur: 6. bekkur.
Besti maturinn: Fajitas.
Besti drykkurinn: Vit-Hit og Sparkling ICE.
Besta lagið/tónlistin: Perfect með Ed Sheeran.
Á hvað ertu að horfa þessa dagana? (sjónvarpsþættir): Horfi lítið á sjónvarpsþætti en stundum á bíómyndir. Horfði síðast á Home Alone.

 

Ættartréð: Foreldrar mínir eru Óskar Örn Guðbrandsson og Áslaug Ósk Hinriksdóttir. Systkini mín eru Þuríður Arna (15 ára), Oddný Erla (13 ára), Hinrik Örn (9 ára) og Jóhanna Ósk (4 ára).


Hvernig kom það til að þú fékkst hlutverk í myndinni?
„Ég fór í prufur sem voru auglýstar og var svo valinn eftir þær.“

Hefur þú leikið áður í kvikmynd?
„Nei“.

Hefur þú áhuga á leiklist?
„Já og mig langar að leika meira.“

Ertu að æfa fótbolta og með hvaða liði þá?
„Já ég er að æfa með 5. flokki í Fylki.“

Framtíðardraumar þínir, hverjir eru þeir?
„Mig langar að vera fótboltamaður og leikari.“

Hvað er það eftirminnilegasta sem gerðist við tökurnar á myndinni?
„Þegar við vorum útá sjó og loftnet á bátnum rakst upp í kletta og datt af. Þá varð ég soldið hræddur.“

Hvert er vandræðalegasta atvikið sem gerðist við tökurnar á myndinni?
„Í sömu bátsferð átti ég að fara með langan texta en gleymdi honum alveg.“

Hvaða áhugamál hefur þú fyrir utan leiklist og fótbolta?
„Ég er líka að æfa badminton í TBR. Ég fylgist líka mjög vel með enska boltanum.“

Lestu mikið, bækur og slíkt?
„Nei ég er ekki mjög duglegur að lesa.“

Hefur þú lesið aðrar bækur sem eru eftir höfundinn á Víti í Vestmannaeyjum?
„Já ég hef lesið þær allar og þær eru mjög skemmtilegar. Hef líka lesið bækur eftir Þorgrím Þráinsson.“

Langar þig að taka þátt í fleiri slíkum kvikmyndaverkefnum?
„Já það væri gaman. Hef leikið smá eftir sumarið.“

ÍA og Akranes, hvernig er tengingin þín?
„Pabbi minn er frá Akranesi og amma og afi og systur pabba búa þar í dag ásamt fjölskyldum sínum.“

Myndin Víti í Vestmannaeyjum er byggð á fyrstu bókinni í vinsælum barnabókaflokki eftir Gunnar Helgason. Ár hvert er haldið stórt fótboltamót fyrir krakka í Vestmannaeyjum og þetta ár mætir hinn tíu ára Jón Jónsson til þess að keppa með Fálkum. En þegar hann kynnist Ívari, strák úr ÍBV sem á bágt heima fyrir, þarf Jón að vaxa hraðar úr grasi en hann óraði fyrir, bæði innan og utan vallar.

Bragi Þór Hinriksson leikstýrir en handrit skrifa Jóhann Ævar Grímsson, Gunnar Helgason og Ottó Geir Borg. Sagafilm framleiðir




Guli liturinn hefur verið einkennismerki ÍA í langan tíma en Íþróttabandalag Akraness var stofnað árið 1946.

En hvers vegna var guli liturinn fyrir valinu?, og kemur Dortmund í Þýskalandi við sögu í valinu á litnum?

Skagafréttir leituðu að sjálfsögðu í sagnabrunninn Jón Gunnlaugsson til þess að fá úr þessu skorið. Jón var leiftursnöggur að svara þegar hann var inntur eftir því hvort hann vissi eitthvað um valið á gula litnum.

„Söguna má rekja til ársins 1950 þegar Karl Guðmundsson, fyrirliði íslenska landsliðsins og leikmaður Fram, var í námi í íþróttafræðum í Köln í Þýskalandi,“ segir Jón en Karl hafði þjálfað lið ÍA árið 1948 samhliða því að hann lék með Fram.

„Þessi tenging Karls við ÍA varð til þess að Guðmundur Sveinbjörnsson þáverandi formaður ÍA hafði samband við Karl í Þýskalandi. Guðmundur óskaði eftir aðstoð við að útvega búninga fyrir ÍA. Áður en þessi búningur kom þá lék liðið í hvítum skyrtum og bláum buxum. Á þessum árum mættu leikmenn til leiks í hvítu spariskyrtunum sínum.“

 

Guðmundur hafði þá ósk að fá búninga sem skáru sig frá þeim litum sem voru notaðir af knattspyrnuliðunum í Reykjavík. Rauði liturinn var Valsbúningurinn, sá blái hjá Fram, og KR var með hvítar og svartar rendur á búningunum.

„Karl keypti búninga eins og óskað var eftir. Hann valdi gulan og svartan búning og þannig var liturinn ákveðinn,“ segir Jón.

Skagamenn klæddust þessum búningi fyrst vorið 1951 og þá var komið nýtt merki og urðu Íslandsmeistarar, fyrstir liða utan Reykjavíkur. Á sama tíma og nýji búningurinn kom var merki félagsins líka breytt í það sem enn er notað í dag.

Auglýsing



Auglýsing










Í dag hófst formleg söfnun í minningarsjóð Arnars Dórs Hlynssonar. „Hjá okkur hjá Sansa verður þannig háttur á að í þessari pöntunarviku, sem stendur fram til miðnættis 10. janúar munu 750 kr. af hverjum matarpakka fara í minningarsjóð Arnars Dórs.

„Arnar Dór Hlynsson var topp náungi en ótrúlega óheppinn með veikindi. Hann kvartaði samt aldrei. Minningarsjóður Arnars Dórs er stofnaður af Sansa, Team ´79 og ÍA. Sjóðurinn mun í framtíðinni styðja við bakið á góðum málum sem tengjast uppáhaldsíþróttum Arnars Dórs,“ segir Þórður Már Gylfason eigandi Sansa við skagafrettir.is.

ÍA mun hafa umsjón með minningarsjóðnum og verður úthlutað úr sjóðnum einu sinni á ári.

„Arnar Dór vinur minn lést þann 14. september 2017, langt fyrir aldur fram. Á þeim tíma var ég að setja fyrirtækið á laggirnar og það gafst enginn tími til þess að gera það sem mig langaði að gera til að heiðra minningu hans. Með hjálp margra þá er þessi minningarsjóðurinn nú til. Árgangur 79 sem Arnar Dór tilheyrði á stóran þátt í þessu ásamt ÍA og foreldrum Arnars Dórs.

Niðurstaðan er sú að minningarsjóður Arnars Dórs mun styrkja þau aðildarfélög ÍA sem hann tengdist. Það eru golf, fótbolti og kraftlyftingar. Arnar Dór var mikill stuðningsmaður knattspyrnunnar, hann var á golfvellinum flesta daga og lyfti lóðum af krafti þess á milli.“

Fyrirtækið Sansa sem Þórður Már setti á laggirnar á Akranesi í fyrra sérhæfir sig í því að útbúa matarpakka fyrir einstaklinga og fjölskyldur. Óhætt er að segja að viðtökurnar hafi farið fram úr björtustu vonum Þórðar.

„Síðasta vika var sú besta frá upphafi, metvika, og ég vona að þessi vika verði ekki síðri til þess að efla minningarsjóð Arnars Dórs. Og að sjálfsögðu er einn af réttum vikunnar uppáhaldsfiskisúpa Arnars Dórs,“ bætti Þórður Már við.

Fyrir þá sem vilja leggja inn á minningarsjóð Arnars Dórs þá er þetta númerið á styrktarreikningnum:

552-14-350047

kt. 670169-2199



Parhús sem er í byggingu við Seljuskóga á Akranesi hefur vakið athygli. Um er að ræða fyrsta slíka húsið sem reist er á Íslandi. Byggingarefnið er krosslímt timbur og koma einingarnar frá Binderholz fyrirtækinu í Austurríki.

Strúktúr ehf. á Íslandi flutti húsið inn fyrir Bjarna Inga Björnsson og Jón Þór Jónsson sem eru að byggja húsið.

Knattspyrnumaðurinn Ólafur Þórðarson stjórnaði ÞÞÞ krananum í þessu verki af stakri list eins og sjá má í þessu myndbandi sem nýlega var birt á youtube. Og það var Skagamaðurinn Hjalti Sigurbjörnsson sem tók myndbandið.



Bæjarstjóri Akraness ríður á vaðið í nýjum fréttaflokki á skagafrettir.is. Markmiðið er að safna saman bragðgóðum, einföldum og hollum uppskriftum. Með tíð og tíma verður til staðar sarpur af góðum hugmyndum um notkun á hráefnum þar sem að hollusta og bragðgæði eru höfð að leiðarljósi.

„Þetta er mjög vinsæll réttur á heimilinu en ég fletti upp uppskrift að honum sumarið 2018 þegar fótboltastrákunum var bjargað úr hellinum í Taílandi. Í einni fréttinni kem fram að Pad Krapow með kjúklingi var það fyrsta sem þeir báðu um að borða og ákvað ég að elda þennan rétt þeim til heiðurs daginn sem þeim var bjargað. Þessi réttur með salati dugar auðveldlega fyrir fjóra,“ segir Sævar Freyr Þráinsson.

Sævar Freyr skorar á Ástþór Vilmar Jóhannsson að taka við keflinu og koma með næstu uppskrift en verkefnið er hluti af „Heilsueflandi Samfélagi“ á Akranesi.

Kjúklinga Pad krapow

Hráefni (mæli með að gera hráefni tilbúið fyrirfram því það tekur bara um 12-15 mín að elda):

3 til 4 msk olía

3 chilli fræ hreinsuð og skorin í sneiðar (ég skar smátt. (hef fræin af einu chilli með til að hafa hann bragð sterkari)

3 skallottulaukar, skornir í þunnar sneiðar (ég skar smátt)

5 hvítlauksrif skorin í þunnar sneiðar

600-700 gr kjúklingalæri beinhreinsuð án skinns (set í matvinnsluvél og tæti kjúkling niður í hakk) Ekki henda kjúklingafitu hún bráðnar og gefur bragð)

1 msk sykur (pálma/kókossykur ef til)

3 msk soyasósa

1 1/2 msk fiskisósa

1/2 bolli kjúklingasoð (ég hitaði vatn í örbylgju og leysti upp 1/2 tening)

1 búnt Thai basil lauf (má sleppa og hefur ekki mikil áhrif á réttinn eða nota ferskt venjulegt. Thai basil er til í asísku búðunum í Rvk).

Leiðbeiningar:

Sjóðið hrísgrjón á meðan. Hæfilegur skammtur fyrir fjóra ættu að vera 3 bollar af grjónum. Þarf töluvert með þessum rétt.

Setja stóra pönnu á hæsta hita, bætið við olíu, chilli, skallottulauk og hvítlauk, og steikið í 1-2 mínútur þar til búið að mýkjast og jafnvel farið að brúnast lítillega í endum. Bætið við kjúklinga ”hakkinu” og steikið í um 5 mín þar til farið að brúnast lítillega. Tryggið að kjúklingurinn loði ekki saman og reynið að brjóta niður stærri bita.

Bætið við sykur, soyasósu, og fiskisósu. Steikið í aðra mínútu og jafnvel lengur þar til soð hefur að mestu horfið. Bætið þá út í kjúklingasoði og eldið áfram þar til mest af soðinu er horfið og farið að hjúpa kjúklinginn. Þetta á ekki að taka langan tíma 5-7 mín því pannan er á hæsta hita. Bætið við basil laufum og steikið í stutta stund þar til þau hafa visnað og blandast réttinum.

Berið fram með ríflegu magni af hrísgrjónum í skál þar sem hver og einn bætir ofan á réttinum og soyasósu að smekk hvers og eins.

Pad krapow með hrísgrjónum án salats stendur vel undir væntingum. Ef eldað er fyrir fleiri þá er auðvelt að tvöfalda allt í réttinum en gera þarf ráð fyrir lengri tíma í að sjóða niður vökva.

Asískt salat

70 gr jöklasalat skorið smátt.
70 gr rauðkál skorið í þunnar ræmur.
1/2 appelsínugul papríka (eða rauð eða gul) skorin í þunnar sneiðar.
50 gr gulrætur rifnar eða sneiddar þunnt.
1 vorlaukur skorin í þunnar sneiðar.
1 msk steinselja skorin smátt.
80 gr edamame baunir (fást frosnar belg hreinsaðar í flestum búðum nú orðið).
1 /2 tsk ferskt engifer saxað smátt.
1 hvítlauksrif saxað smátt.
1/2 msk soya sósa.
1 msk hlynsíróp (eða hunang).
1 msk hrísgrjóna edik (eða sítrónusafi).
1 msk extra virgin olívu olía.
1/2 msk ristuð sesam olía.
1 msk sesam fræ (má sleppa).

Leiðbeiningar:

Allt skorna hráefnið sett í skál og blandað vel saman. Fljótandi hráefnum blandað saman og svo sett út í salatskálina og öllu velt saman.

Kær kveðja, Sævar Freyr Þráinsson.



Auglýsing



Það er ekkert leyndarmál að Skagamaðurinn Ólafur Þórðarson segir það sem hann meinar – og hann liggur ekki á skoðunum sínum. 

Ummæli Ólafs á ýmsum málum hafa verið til umfjöllunar í fréttamiðlum á landsvísu og vakið mikla athygli.

Á Þorrablóti Skagamanna lék Ólafur stórt hlutverk í skemmtiatriði 1978 árgangsins – og má sjá það hér fyrir neðan.

Ólafur Þórðarson er einn þekktasti knattspyrnumaður Skagamanna fyrr og síðar. Landsliðsmaður til margra ára og lykilmaður í hinu sigursæla liði ÍA sem mokaði inn titlum seint á síðustu öld.

Ólafur snéri sér að þjálfun eftir að ferlinum lauk og undir hans stjórn varð karlalið ÍA m.a. Íslandsmeistari árið 2001.

ÍA hefur ekki náð að landa Íslandsmeistaratitli í mfl. karla frá árinu 2001.

Auglýsing



Auglýsing



Auglýsing



Auglýsing



Auglýsing



Auglýsing






„Það er hægt að nota ýsu eða þorsk í réttinn sem nýtur vinsælda á okkar heimili. Þetta er einfaldur réttur og sósan gerir fiskréttinn að sælkerarétti,“ segir Ástþór Vilmar Jóhannsson sem tók áskorun frá Sævari Frey Þráinssyni bæjarstjóra fagnandi. Bæjarstjóri Akraness reið á vaðið í nýjum fréttaflokki á skagafrettir.is. með uppskrift að áhugaverðum kjúklingarétti.

Markmiðið með þessum fréttaflokki er að safna saman bragðgóðum, einföldum og hollum uppskriftum. Með tíð og tíma verður til staðar sarpur af góðum hugmyndum um notkun á hráefnum þar sem að hollusta og bragðgæði eru höfð að leiðarljósi.

Fiskur hefur verið mikilvæg fæða á Íslandi frá upphafi byggðar og fáar þjóðir borða jafnmikinn fisk og við Íslendingar. Neysla Íslendinga á fiski hefur samt sem áður minnkað á undanförnum árum. Ástþór Vilmar Jóhannsson vill stuðla að breytingum á því sviði með þessari frábæru uppskrift af steiktum fiski með súrsætri sósu.

Fiskur er ákjósanleg fæða fyrir margra hluta sakir. Má þar nefna að í fiski er gæðaprótein, neysla á fiski getur dregið úr offitu, fiskur er næringarrík fæða og tvímælalaust ein sú hollasta matvara sem völ er á. Fisk ættum við ekki að borða sjaldnar en 3 sinnum í viku.

Ástþór Vilmar skorar á Ingu Dóru Jóhannsdóttur, systur sína, að taka við keflinu og koma með næstu uppskrift áður en langt um líður.

Pönnusteikt ýsa/þorskur með súrsætri sósu

Hráefni:

600 gr. Ýsa eða þorskur
Hveiti
1-2 egg
Salt
Pipar
Matarolía eða smjör til steikingar

Sósa:

½ l vatn
100gr.sykur
9 msk vínedik
1 msk tómatkraftur
3 msk sojasósa
Maizena-sósu jafnari
100gr sveppir
1 græn paprika
1 rauð paprika
100 gr Laukur
100 gr blaðlaukur
100 gr ananasbitar

  1. Skerið fiskinn í bita og setjið til hliðar
  2. Setjið vatn,sykur,edik,tómatkraft og soyasósu í pott. Hleypið upp suðu og þykkið með maizena-sósujafnara.
  3. Skerið sveppi,lauk,blaðlauk í sneiðar og papriku í strimla(ekki of fínt)
  4. Brúnið sveppi,lauk, blaðlauk,papriku,og ananasbita í matarolíu og bætið út í sósuna. Sósan þarf ekki að sjóða mikið.
  5. Hrærið eggin saman og kryddið hveitið með salti og pipar. Veltið fiskinum fyrst upp úr hveitinu og síðan egginu.
  6. Steikið fiskinn í olíu eða smjöri og rétturinn er tilbúinn.

Meðlæti:

Berið réttinn fram með hrísgrjónum eða kartöflum.
Þessi sósa er einnig sérlega ljúffeng með steiktu kjöti.

http://localhost:8888/skagafrettir/2020/09/04/kjuklinga-pad-krapow-er-vinsaell-rettur-a-heimili-saevars-freys/