Loading...
Þessi pistill er skrifaður með það að markmiði að upplýsa lesendur um þá stöðu sem fjölmiðlar á Íslandi búa við. 

Markmiðið er einnig að hvetja ykkur lesendur góðir til þess að taka þátt í því að byggja upp öflugan bæjarfréttamiðil á Akranesi. 

Alþjóðlegir samfélagsmiðlar skrifa ekki fréttir og beina kastljósinu að því sem hæst ber í nærumhverfinu. 

Nánar neðst í þessum pistli.

Fréttavefurinn skagafrettir.is var settur á laggirnar fyrir tæplega níu árum.

Þann 10. nóvember 2016 var ýtt á „enter“ og skagafrettir.is varð aðengilegur á veraldarvefnum. 

Þegar ákvörðunin var tekin að setja þetta verkefni af stað var lagt af stað án þess að hugsa mikið um þær hindranir sem voru á veginum. 

Mikil þekking á fjölmiðlum var til staðar, samhliða brennandi áhuga á samfélaginu á Akranesi. Það var drifkrafturinn og lagt var í þessa vegferð. 

Markmiðið var á þeim tíma að beina kastljósinu að fréttum og sögum af Skagamönnum nær og fjær. 

Fréttum sem stóru fréttamiðlar landsins hafa ekki tök á að fjalla um eða falla utan áhugasviðs þeirra.

Jákvæður tónn hefur einkennt fréttaflóruna á skagafrettir.is – með einhverjum undantekningum þó. Og viðtökur lesenda hafa verið framar vonum. Kærar þakkir.

Í dag eru um 6000 fréttir aðgengilegar á skagafrettir.is – samhliða því hafa mörg þúsund ljósmyndir verið teknar sem eru aðgengilegar á ljósmyndavef Skagafrétta

Frá því að fréttamiðlar á heimsvísu byrjuðu að setja fréttir á veraldarvefinn rétt fyrir síðustu aldamót hafa lesendur gengið að því vísu að geta lesið fréttir og greinar án þess að greiða fyrir það. 

Á fyrstu áratugum veraldarvefsins gekk þetta viðskiptamódel upp upp þar sem að töluverð eftirspurn var hjá auglýsendum á slíkum miðlum. 

Í dag er landslagið mun flóknara og tekjumöguleikar fjölmiðla á auglýsingamarkaði fara ört minnkandi. 

Öflug og framsýn fyrirtæki hafa frá fyrsta degi tekið þátt í þessu verkefni með okkur. Einstaklingar hafa einnig lagt Skagafréttum lið með framlögum. Slíkur stuðningur er ómetanlegur. Kærar þakkir. 

Þessi stuðningur dugir hinsvegar ekki til þess að að skagafrettir.is geti talist sjálfbær og staðið undir einu stöðugildi. Þar vantar töluvert upp á. 

Eins kemur fram fyrr í þessum pistli er staðan á auglýsingamarkaði flókinn og erfið. 

Sem dæmi úr nærsamfélaginu á Akranesi má nefna að stór og landsþekkt fyrirtæki nýta sér flest þjónustu birtingahúsa til að velja þá miðla þar sem auglýst er.

Birtingahúsin forgangsraða fjármagninu sem þau hafa til umráða frá viðkomandi fyrirtækjum til auglýsingakaupa á stóru miðlana og erlenda samfélagsmiðla. 

Það færist í aukana að fyrirtæki og birtingahús kaupi auglýsingar hjá risafyrirtækjunum á borð við Facebook, Youtube, Tik Tok og Google

Í þessu samhengi má benda á þá staðreynd að þessir aðilar skrifa ekki fréttir úr nærsamfélaginu – það gera aðrir sem hafa brennandi áhuga á því – án þess að fá sneið af auglýsingakökunni. 

Það eru einnig stórfyrirtæki á Akranesi sem auglýsa nánast ekki neitt í þeim fjölmiðlum sem eru í nærumhverfinu (Skagafréttir, Skessuhorn).

Akraneskaupstaður hefur einnig bæst í þann hóp sem auglýsir nánast ekki neitt í bæjarfréttamiðlum á Akranesi. 

Fyrirtæki og stofnanir nota í auknum mæli íbúasíður á samfélagsmiðlum,  (Ég er íbúi á Akranesi) til þess að koma sínum vörum og þjónustu á framfæri. 

Það má alveg setja spurningamerki við þessa þróun – og velta því fyrir sér hvort það sé eðlilegt að risafyrirtæki fá „hillu“ fyrir óbeinar auglýsingar á íbúasíðum á samfélagsmiðlum.  

Samfélagsmiðlar sem notaðir eru sem upplýsingasíður fyrir íbúa hafa sína kosti. 

Slíkt hentar vel fyrir félagasamtök, einyrkja og einstaklinga sem geta með einföldum hætti náð til margra á stuttum tíma. 

Samfélagsmiðlar skrifa hinsvegar ekki fréttir og beina kastljósinu að því sem hæst ber í nærumhverfinu. 

Lítil og meðalstór fyrirtæki á Akranesi nýta mörg hver samfélagsmiðla í auknu mæli til þess að koma sér á framfæri. Það er mjög skiljanlegt þar sem að sá gluggi er mun stærri en bæjarfréttamiðlar geta boðið upp á. 

Einnig eru mörg fyrirtæki hér á Akranesi sjá engan tilgang í því að láta vita af sér með auglýsingum. 

Staðan er því flókin, erfið og stundum óréttlát. 

Bæjarfréttamiðlar víðsvegar um landið hafa á undanförnum árum verið lagðir niður þar sem að rekstrargrundvöllur þeirra var brostinn. Margir telja að slíkir miðlar séu í útrýmingarhættu.

Fréttamiðlar víðsvegar um veröldina hafa í auknu mæli farið þá leið að loka fyrir frían aðgang að fréttum. 

Stærstu fjölmiðlar heims hafa fetað þá slóð að búa til lokað áskriftarkerfi – þrátt fyrir að vera með góða stöðu á auglýsingamarkaði. 

Skagafréttir hafa ekki hug á því að læsa efninu og hefta aðgengi að vefnum. 

Skagafréttir bera þá von í brjósti að þið lesendur, Skagamenn nær og fjær, íhugi þá stöðu sem bæjarfréttamiðlar búa við í harðri samkeppni á auglýsingamarkaði. 

Þið kæru lesendur eru grunnurinn að því að bæjarfréttamiðlar á borð við Skagafréttir haldi áfram að beina athyglinni að því sem er að gerast í samfélaginu á Akranesi. 

Það gerið þið með því að sýna stuðning ykkar í verki með frjálsum framlögum – sem má líta á sem áskrift að jákvæðum fréttum úr ört vaxandi samfélagi á Akranesi. 

Þú getur smellt hér til þess að skoða þá valkosti sem eru í boði hvað varðar stuðning við skagafrettir.is. 

Bestu kveðjur og takk fyrir að nenna að lesa þetta;
Sigurður Elvar Þórólfsson, eigandi og ritstjóri Skagafrétta.

 


Í gær var opið hús fyrir bæjarbúa og aðra gesti í þremur mannvirkjum á Jaðarsbakkasvæðinu.

Grundaskóli opnaði dyrnar fyrir gestum eftir gríðarlegar breytingar á elsta hluta skólans – sem er eins og sjá má í þessu myndbandi gjörbreyttur eftir miklar framkvæmdir. 

Nýtt íþróttahús við Jaðarsbakka, AvAir höllin, var einnig opinn fyrir almenning. Það hús á eftir að gjörbreyta aðstöðu til íþróttakennslu, sem og aðstöðu til æfinga og keppni í ýmsum greinum. Einnig er lyftingasalur fyrir ÍA og skrifstofuaðstaða fyrir kennara, þjálfara og félög. 

World Class og World Fit Ægir opnuðu nýverið í gamla íþróttahúsinu við Jaðarsbakka (Bragginn). Þar hefur fyrirtækið séð um að kosta breytingarnar sem gerðar hafa verið – og eins og sjá má í þessu myndbandi er aðstaða til líkamsræktar nú þegar í hæsta gæðaflokki. Á næstu vikum verður rýmið stækkað enn frekar á „gömlum grunni“ á 2. hæð þar sem að líkamsrækt ÍA var áður.  Á því svæði verða ýmsir salir sem verða nýttir með ýmsum hætti. 


Skagamaðurinn Lúðvík Gunnarsson mun stýra U-21 árs landsliði Íslands í knattspyrnu í næsta leik liðsins.

Lúðvík hefur verið aðstoðarþjálfari en aðalþjálfari liðsins, Ólafur Ingi Skúlason, tók við liði Breiðabliks nýverið. Frá þessu er greint á vef KSÍ. 

Ólafur Kristjánsson, aðstoðarþjálfari kvennalandsliðsins, verður aðstoðarmaður Lúðvíks í þessu verkefni. 

Lúðvík er einnig aðalþjálfari U-17 ára landsliðs karla. 

Leikurinn sem U-21 árs liðið á eftir í undankeppni EM er gegn Lúxemborg þann 13. nóvember n.k. Leikurinn fer fram í Lúxemborg.

Lúðvík mun tilkynna leikmannahópinn á miðvikudaginn í þessari viku. 


Dregið var í bikarkeppni karla í körfuknattleik í dag, VÍS-bikarnum. 

Skagamenn eru í 16 liða úrslitum og mótherjar ÍA verður lið Keflavíkur – sem hefur titil að verja í þessari keppni. Keflavík hefur alls sjö sinnum sigrað í bikarkeppni KKÍ en KR er með flesta titla eða 17 alls. 

Besti árangur ÍA í þessari keppni er frá árinu 1996 þegar liðið komst í úrslitaleikinn í fyrsta – og eina sinn til þessa. Þar hafði lið Hauka betur. 

Leikirnir í 16-liða úrslitum fara fram 14.-15. desember. 

Liðin sem mætast í 16-liða úrslitum VÍS bikarsins eru: 

  • KR – Fjölnir
  • Valur – ÍR
  • Snæfell – KV
  • Grindavík – Ármann
  • Stjarnan – Álftanes
  • Breiðablik – Haukar
  • ÍA – Keflavík
  • Tindastóll – Hamar

Bikarmeistarar karla 1970-2024:

1970:  KR (1)
1971:  KR (2)
1972:  KR (3)
1973:  KR (4)
1974:  KR (5)
1975:  Ármann (1)
1976:  Ármann (2)
1977:  KR (6)
1978:  ÍS (1)
1979:  KR (7)
1980:  Valur (1)
1981:  Valur (2)
1982:  Fram (1)
1983:  Valur (3)
1984:  KR (8)
1985:  Haukar (1)
1986:  Haukar (2)
1987:  Njarðvík (1)
1988:  Njarðvík (2)
1989:  Njarðvík (3)
1990:  Njarðvík (4)
1991:  KR (9)
1992:  Njarðvík (5)
1993:  Keflavík (1)
1994:  Keflavík (2)
1995:  Grindavík (1)
1996:  Haukar (3)
1997:  Keflavík (3)
1998:  Grindavík (2)
1999:  Njarðvík (6)
2000:  Grindavík (3)
2001:  ÍR (1)
2002:  Njarðvík (7)
2003:  Keflavík (4)
2004:  Keflavík (5)
2005:  Njarðvík (8)
2006:  Grindavík (4)
2007:  ÍR (2)
2008:  Snæfell (1)
2009:  Stjarnan (1)
2010:  Snæfell (2)
2011:  KR (10)
2012:  Keflavík (6)
2013:  Stjarnan (2)
2014:  Grindavík (5)
2015:  Stjarnan (3)
2016:  KR (11)
2017:  KR (12)
2018:  Tindastóll (1)
2019:  Stjarnan (4)
2020:  Stjarnan (5)
2021:  Njarðvík (9)
2022:  Stjarnan (6)
2023:  Valur (4)
2024: Keflavík (7)

Flestir bikarmeistaratitlar karla 1970-2024:

12 KR (1970, 71, 72, 73, 74, 77, 79, 84, 91, 2011, 16, 17)
  9 Njarðvík (1987, 88, 89, 90, 92, 99, 2002, 05, 21)
  7 Keflavík (1993, 94, 97, 2003, 04, 2012, 2024)
  6 Stjarnan (2009, 2013, 2015, 2019, 2020, 2022)
  5 Grindavík (1995, 98, 2000, 06, 14)
  4 Valur (1980, 81, 83, 2023)
  3 Haukar (1985, 86, 96)
  2 Ármann (1975, 76)
  2 ÍR (2001, 07)
  2 Snæfell (2008, 2010)
  1 Tindastóll (2018)
  1 ÍS (1978)
  1 Fram (1982)


Bæjarráð Akraness fór yfir drög að fjárhagsáætlun fyrir tímabilið 2027-2029 á fundi sínum þann 30. október s.l. Fyrri umræða um áætlunina verður í bæjarstjórn þann 11. nóvember. 

Á fundinum þann 30. október kom fram að bæjarráð gerir verulegar athugasemdir við það hversu seint áætlanir frá Jöfnunarsjóði berast sveitarfélaginu.  Ráðið bendir á að núverandi fyrirkomulag á skilum Jöfnunarsjóðs á áætluðum fjárveitingum komandi fjárhagsár gerir sveitarfélögum í raun ómögulegt að standast tilvitnaðar lagakröfur.

Nánar í textanum hér fyrir neðan úr fundargerð.

„Bæjarráð gerir verulegar athugasemdir við það hversu seint áætlanir frá Jöfnunarsjóði berast sveitarfélaginu og í ár er þetta sérstaklega erfitt þar sem bæði er búið að gera viðamiklar breytingar á úthlutunarforsendum sjóðsins sbr. nýsamþykkt lög þar að lútandi og því til viðbótar liggja ekki fyrir fjárhagslegar upplýsingar vegna ársins 2026 frá mennta- og barnamálaráðuneytinu vegna málefna barna með fjölþættan vanda en sem stendur er verið að kalla eftir upplýsingum frá einstökum sveitarfélögum vegna ársins 2025 og ekki búið að greiða frá 1. júlí sl. sem er það tímamark sem ríkið skv. samkomulagi við Samband íslenska sveitarfélaga ber að miðað við varðandi yfirtöku verkefnisins hvað fjármögnun varðar.

Bæjarráð í góðri samvinnu við stjórnendur Akraneskaupstaðar hefur lagt áherslu á að flýta sem mest fjárhagsáætlunarferlinu til að ná sem best utan um þær hagstærðir sem skipta grundvallarmáli við áætlunargerðina og sem kunnugt er ber sveitarfélögum að hafa lokið fyrri umræðu um fjárhagsáætlun fyrir 1. nóvember ár hvert og síðari umræðu fyrir 15. desember ár hvert. Núverandi fyrirkomulag á skilum Jöfnunarsjóðs á áætluðum fjárveitingum komandi fjárhagsár gerir sveitarfélögum í raun ómögulegt að standast tilvitnaðar lagakröfur.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að koma þessum ábendingum á framfæri við hlutaðeiganda ráhðerra.“

 

 

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga? – hvað er það?

Tekjur Akraneskaupstaðar á árinu 2024 voru rúmlega 13 milljarðar kr. Framlag úr jöfnunarsjóði var um 2,7 milljarðar kr. sem eru um 20% af tekjum kaupstaðarins. 

Hlutverk Jöfnunarsjóðs er að jafna mismunandi útgjaldaþörf og skatttekjur sveitarfélaga með framlögum úr sjóðnum á grundvelli ákvæða laga, reglugerða og vinnureglna sem settar eru um starfsemi sjóðsins. Þá greiðir sjóðurinn framlög til samtaka sveitarfélaga, stofnana þeirra og annarra aðila í samræmi við ákvæði laga.

 


Bandaríkjamaðurinn Darnell Cowart hefur leikið sinn síðasta leik með ÍA í Bónusdeildinni í körfuknattleik karla.

Forráðamenn Körfuknattleiksfélags Akraness sögðu upp samningi hans og er hann á förum. 

Cowart lék fimm leiki með ÍA í Bónusdeildinni. Hann skoraði 18 stig að meðaltali, tók 6 fráköst, og gaf 3 stoðsendingar. 

ÍA ætlar að fylla skarð hans með öðrum bandarískum leikmanni en ekki er ljóst hvenær nýr leikmaður kemur á Akranes. 

Næsti leikur ÍA er á fimmtudaginn þegar Valur kemur í heimsókn fimmtudaginn 6. nóvember – þegar AvAir höllin við Jaðarsbakka verður vígð sem nýr heimavöllur ÍA í körfunni. 

Skagamenn eru í 9. sæti deildarinn með 2 sigra og 3 töp eftir fimm umferðir. 


Íþróttabandalag Akraness óskaði nýverið eftir samstarfi við Akraneskaupstað við fjármögnun kaupa á LED auglýsingaskiltum sem nýtast í keppnisleiki í íþróttagreinum sem fara fram innandyra. Þetta kemur fram í fundargerð skóla – og frístundaráðs. 

„Skiltin munu bæta upplifun áhorfenda, auka sýnileika styrktaraðila, skapa ný tækifæri til tekjuöflunar fyrir aðildarfélög ÍA og um leið minnka sýnileika auglýsinga á milli viðburða í íþróttamannvirkjunum,“ segir ennfremur. 
 
Skóla- og frístundaráð hefur falið sviðsstjóra að vinna málið áfram og er  gert ráð fyrir að erindið komi aftur til umfjöllunar á næsta fundi ráðsins.


Nemendur í árgangi 2010 í Grundaskóla hafa á undanförnum vikum staðið í ströngu við æfingar á söngleiknum Smelli – sem frumsýndur verður á sunnudaginn. Verkið eftir þríeykið Einar Viðarsson, Flosa Einarsson og Gunnar Sturlu Hervarsson – en það var frumsýnt árið 2018. 

Söngleikurinn er í anda 9. áratugarins, þar sem herðapúðar, blásið hár, andlitsfarði, mixteip og margt annað lummó ræður ríkjum. Sagan hefur því að geyma margar skemmtilegar og litríkar persónur, hraða atburðarás, kraftmikla tónlist og dans, sem allt blandast saman í skemmtilegan og litríkan hrærigraut.

Nánar á vef Grundaskóla – smelltu hér: 

Leikstjórn: Einar Viðarsson
Tónlistarstjórn: Flosi Einarsson
Söngstjórn: Elfa Margrét Ingvadóttir og Margrét Saga Gunnarsdóttir
Danshöfundur: Sandra Ómarsdóttir
Búningahönnun: Eygló Gunnarsdóttir
Sýnt er á sal Grundaskóla, Espigrund 1, 300 Akranesi

Viðtökur bæjarbúa og annarra gesta á söngleikjum Grundaskóla hafa verið með eindæmum góðar og hafa sýningargestir alltaf verið vel á þriðja þúsund.

 


Knattspyrnufélag ÍA greindi frá því í dag að félagið hafi gengið frá samningi við Gísla Eyjólfsson.

Samningurinn er til þriggja ára. Gísli, sem er fæddur árið 1994,  lék með Breiðabliki áður en hann fór í atvinnumennsku hjá Halmstad í Svíþjóð árið 2022.

Gísli var í stóru hlutverki hjá Blikum þegar liðið varð Íslandsmeistari haustið 2022. 

Nánar á samfélagsmiðlum KFÍA. 




Áformað er að reka álver Norðuráls á Grundartanga á fullum afköstum að loknum viðgerðum á verksmiðjunni, þar sem bilun varð í síðustu viku með þeim afleiðingum að framleiðsla í hluta verksmiðjunnar stöðvaðist. Ekki eru uppi áform um uppsagnir fastráðins starfsfólks. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. 

Þessar upplýsingar fengu sveitarstjórnarfulltrúar Akraneskaupstaðar og Hvalfjarðarsveitar, en þeir funduðu með forstjóra Norðuráls sl. þriðjudag, þar sem staðan í álverinu var til umræðu. Auk sveitarstjórnarfulltrúanna sátu nokkrir þingmenn Norðvesturkjördæmis fundinn.

Á fundinum kom m.a. fram að ekki væru uppi nein áform um uppsagnir fastráðins starfsfólks, en mörg verkefni bíða úrlausnar í álverinu og þá ekki síst standsetning verksmiðjunnar á nýjan leik. Mikilvægt væri að halda í vant og þjálfað starfsfólk.

Nánar í Morgunblaðinu. 


Ágústa Rósa Andrésdóttir er nýr forstöðumaður íþróttamannvirkja á Akranesi.

Ágústa Rósa er frá Akranesi og hefur m.a. verið formaður karatefélags Akraness, setið í stjórn badmintfélags Akraness og í framkvæmdastjórn Íþróttabandalags Akraness. Ágústa hefur starfað sem æskulýðsfulltrúi í Hvalfjarðarsveit, og nú síðast sem  Forstöðumaður Frístundasels Lágafellsskóla í Mosfellsbæ.

Bæjarstjórn Akraness samþykkti ráðningu Ágústu á síðasta bæjarstjórnarfundi. Alls sóttu 17 manns um starfið. Hörður Kári Jóhannesson hefur verið forstöðumaður íþróttamannvirkja á Akranes og var honum þökkuð góð störf á bæjarstjórnarfundinu.

Ágústa er fædd árið 1971 og hún er gift Herði Svavarssyni rafvirkja og þau eiga þrjú börn, Andrés Má,  Aðalheiði Rósu og
Ólaf Elías.

Ágústa Rósa Andrésdóttir.

 

Eftirtaldir sóttu um starfið:

Ágústa Rósa Andrésdóttir
Baldvin Bjarki Baldvinsson
Daisy Heimisdóttir
Ellert Baldur Magnússon
Eyrún Ída Guðjónsdóttir
Finnbogi Rafn Gudmundsson
Guðbjartur Máni Gíslason
Helena Rúnarsdóttir
Helgi Magnússon
Indriði Jósafatsson
Ingimar Elí Hlynsson
Magnús Gísli Sveinsson
Óli Þór Júlíusson
Pétur V. Georgsson
Ragnheiður Smáradóttir
Sturlaugur Sturlaugsson
Valdimar Leó Friðriksson


Eva Björg Ægis­dóttir frá Akranesi fékk í dag afhent spennu­sagna­verð­launin Svart­fuglinn fyrir bókina Marrið í stiganum.

Eliza Reid, forsetafrú, af­henti verðlaunin.

 

Yrsa Sigurðar­dóttir og Ragnar Jónas­son eru hug­mynda­fræðingarnir að baki verð­laununum sem ætluð eru höfundum sem ekki hafa áður sent frá sér glæpa­sögu. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Eva er eins og áður segir frá Akranesi en foreldrar hennar eru Ægir Jóhannsson og Sigríður Björk Kristinsdóttir.




Í áliti dómnefndar um bókina segir meðal annars: „Sagan er grípandi og spennandi samhliða því að veita innsýn í myrkan og sáran veruleika. Fléttan er fagmannlega unnin, söguþráðurinn sterkur og sögulokin koma lesandanum á óvart.“

Verðlaunin nema 500.000 krónum auk hefðbundinna höfundarlauna. Sigurvegaranum býðst einnig samningur við umboðsmanninn David H. Headley en tímaritið Bookseller útnefndi hann sem einn af 100 áhrifamestu mönnum breskrar bókaútgáfu árið 2015.

Eva er með MSc gráðu í alþjóðamálum frá Tækniháskólanum í Þrándheimi og BA gráðu í félagsfræði frá Háskóla Íslands. Hún starfar hjá fyrirtækinu Maskína en hún hefur einnig starfað á þróunarsviði VÍS tryggingafélags, verið aðstoðamaður við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og sem starfsmaður á alþjóðasviði hjá utanríkisráðuneytinu í Noregi. Þá hefur hún starfað sem fyrsta flugfreyja hjá flugfélaginu Wow Air.




Skagafrettir.is hefur frá upphafi verið opinn fréttavefur og markmiðið er að halda áfram á þeirri vegferð.  

Áhugi á efninu er til staðar. Mörg þúsund heimsóknir á hverjum degi á skagafrettir.is staðfestir að lesendur hafa áhuga á jákvæðum fréttum úr nærsamfélaginu.

Þú kæri lesandi getur tekið þátt í að efla fréttavefinn skagafrettir.is með þínu framlagi. Slíkur stuðningur er afar mikilvægur fyrir bæjarfréttamiðla.

Það er hart sótt að bæjar - og staðarfréttamiðlum á Íslandi - og slíkir miðlar eru í raunverulegri útrýmingarhættu. 

Skagafréttir fóru í loftið í nóvember 2016 og frá þeim tíma hafa vel á fjórða þúsund fréttir verið skrifaðar á skagafrettir.is.

Skagafréttir ehf.
552-26-11875
440219-0550

Frjáls framlög frá lesendum eru styrkasta stoðin í rekstri Skagafrétta. Slíkur stuðningur er afar mikilvægur og hvatning til að halda áfram að miðla því öllu því jákvæða sem er í gangi á Akranesi og hjá Skagamönnum nær og fjær.

Frjáls framlög gefa jákvæða strauma og kraftmeiri fréttaflutning.


Skagafréttir ehf.
552-26-11875
440219-0550

Kærar þakkir fyrir allar heimsóknirnar á skagafrettir.is og stuðninginn.


Skagafréttir ehf.
552-26-11875
440219-0550

http://localhost:8888/skagafrettir/2021/03/18/baejarmidlarnir-eru-i-raunverulegri-utrymingarhaettu/


Ungir og efnilegir leikarar með sterka tengingu á Akranes leika stórt hlutverk í nýrri kvikmynd sem frumsýnd verður þann 23. mars 2018. Myndin heitir Víti í Vestmannaeyjum og er fjölskyldumynd með vísun í sannsögulega atburði. Viktor Benóný Benediktsson, 12 ára, og Theodór Ingi Óskarsson, 11 ára, fengu að upplifa það að leika í þessari mynd og skagafrettir.is fékk þá félaga til þess að segja aðeins frá þeirra upplifun. Stiklu úr myndinni má sjá hér neðst í fréttinni.

Myndin verður að sjálfsögðu sýnd í Bíóhöllinni á Akranesi, laugardaginn 24.  mars og sunnudaginn 25. mars.

Viktor og Theodór ætla sér að lesa meira en þeir hafa gert áður og leiklistinn hefur svo sannarlega fangað athygli þeirra.

Theodór og Viktor

Nafn: Viktor Benóný Benediktsson.

Aldur: 12 ára.
Skóli: Breiðagerðisskóli.
Bekkur: 7 bekkur.
Besti maturinn: Hamborgarahryggur og Sushi.
Besti drykkurinn: Vatn.
Besta lagið/tónlistin. Michael Jackson – Beat It.
Á hvað ertu að horfa þessa dagana? (sjónvarpsþættir)
Stranger things 2 og Friends.

 

Ættartréð:
Benedikt Steinar Benónýsson er pabbi minn og Íris Dögg H Marteinsdóttir er stjúpmamma mín, og systkini mín eru þau Tindur Marinó (5 ára) og Hafrún Embla (11 ára).
Auður Valdís Grétarsdóttir er mamma mín og stjúppabbi minn er Guðmundur Ingiberg Arnarsson, og systkini mín eru Elmar Benvý (4 ára) og Arnar Levý (6 ára). Og ekki má gleyma ömmu minni sem heitir Hulda Jónína Jónsdóttir

Theodór ásamt systkinum sínum.


Hvernig kom það til að þú fékkst hlutverk í myndinni?

„Ég mætti í nokkrar prufur fyrir myndina, mamma sá auglýsingu fyrir prufurnar á Facebook.“

Hefur þú leikið áður í kvikmynd?
„Já, en oftast bara í aukahlutverkum og í þáttum. T.d. Fyrir framan annað fólk og Loforði.“

Hefur þú áhuga á leiklist?
„Já mjög mikinn áhuga, ég ætlaði að verða lögga þegar ég yrði stór. En svo kynntist ég kvikmyndaheiminum og fann að þetta var ætlað mér.“

Ertu að æfa fótbolta og með hvaða liði þá?
„Nei, ég æfði fótbolta en er í pásu. Æfi í dag Handbolta með Víkingi og er markmaður.“


Framtíðardraumar þínir, hverjir eru þeir?

„Að það komi stjarna með nafninu mínu á Hollywood Boulevard.“

Hvað er það eftirminnilegasta sem gerðist við tökurnar á myndinni?
„Þegar var fyrsti tökudagurinn í Eyjum og það var brjálað veður.“

Hvert er vandræðalegasta atvikið sem gerðist við tökurnar á myndinni?
„Þegar ég fékk hiksta í miðri töku.“

Hvaða áhugamál hefur þú fyrir utan leiklist og fótbolta?
„Vinir mínir og snjóbretti.“

Lestu mikið, bækur og slíkt?
„Nei, en ég er að bæta mig í því.“

Hefur þú lesið aðrar bækur sem eru eftir höfundinn á Víti í Vestmannaeyjum?
„Já, Amma er Best (mæli með henni ;).“

Langar þig að taka þátt í fleiri slíkum kvikmyndaverkefnum?
„Auðvitað, ef þið viljið fá mig í verkefni hringið þá í mig.“

ÍA og Akranes, hvernig er tengingin þín?
„Ég fæddist á Akranesi og kom reglulega til pabba á Akranes. Ég var líka mikið í sveitinni hjá ömmu og afa. Ég var mjög ungur þegar ég átti heima á Akranesi en man mjög vel eftir því þegar eg fór á Langasand hjá Fríðu frænku og man líka þegar ég fór í Jaðarsbakkalaug með afa það var mjög skemmtilegt.“

Nafn: Theodór Ingi Óskarsson.

Aldur: 11 ára.
Skóli: Norðlingaskóli.
Bekkur: 6. bekkur.
Besti maturinn: Fajitas.
Besti drykkurinn: Vit-Hit og Sparkling ICE.
Besta lagið/tónlistin: Perfect með Ed Sheeran.
Á hvað ertu að horfa þessa dagana? (sjónvarpsþættir): Horfi lítið á sjónvarpsþætti en stundum á bíómyndir. Horfði síðast á Home Alone.

 

Ættartréð: Foreldrar mínir eru Óskar Örn Guðbrandsson og Áslaug Ósk Hinriksdóttir. Systkini mín eru Þuríður Arna (15 ára), Oddný Erla (13 ára), Hinrik Örn (9 ára) og Jóhanna Ósk (4 ára).


Hvernig kom það til að þú fékkst hlutverk í myndinni?
„Ég fór í prufur sem voru auglýstar og var svo valinn eftir þær.“

Hefur þú leikið áður í kvikmynd?
„Nei“.

Hefur þú áhuga á leiklist?
„Já og mig langar að leika meira.“

Ertu að æfa fótbolta og með hvaða liði þá?
„Já ég er að æfa með 5. flokki í Fylki.“

Framtíðardraumar þínir, hverjir eru þeir?
„Mig langar að vera fótboltamaður og leikari.“

Hvað er það eftirminnilegasta sem gerðist við tökurnar á myndinni?
„Þegar við vorum útá sjó og loftnet á bátnum rakst upp í kletta og datt af. Þá varð ég soldið hræddur.“

Hvert er vandræðalegasta atvikið sem gerðist við tökurnar á myndinni?
„Í sömu bátsferð átti ég að fara með langan texta en gleymdi honum alveg.“

Hvaða áhugamál hefur þú fyrir utan leiklist og fótbolta?
„Ég er líka að æfa badminton í TBR. Ég fylgist líka mjög vel með enska boltanum.“

Lestu mikið, bækur og slíkt?
„Nei ég er ekki mjög duglegur að lesa.“

Hefur þú lesið aðrar bækur sem eru eftir höfundinn á Víti í Vestmannaeyjum?
„Já ég hef lesið þær allar og þær eru mjög skemmtilegar. Hef líka lesið bækur eftir Þorgrím Þráinsson.“

Langar þig að taka þátt í fleiri slíkum kvikmyndaverkefnum?
„Já það væri gaman. Hef leikið smá eftir sumarið.“

ÍA og Akranes, hvernig er tengingin þín?
„Pabbi minn er frá Akranesi og amma og afi og systur pabba búa þar í dag ásamt fjölskyldum sínum.“

Myndin Víti í Vestmannaeyjum er byggð á fyrstu bókinni í vinsælum barnabókaflokki eftir Gunnar Helgason. Ár hvert er haldið stórt fótboltamót fyrir krakka í Vestmannaeyjum og þetta ár mætir hinn tíu ára Jón Jónsson til þess að keppa með Fálkum. En þegar hann kynnist Ívari, strák úr ÍBV sem á bágt heima fyrir, þarf Jón að vaxa hraðar úr grasi en hann óraði fyrir, bæði innan og utan vallar.

Bragi Þór Hinriksson leikstýrir en handrit skrifa Jóhann Ævar Grímsson, Gunnar Helgason og Ottó Geir Borg. Sagafilm framleiðir




Guli liturinn hefur verið einkennismerki ÍA í langan tíma en Íþróttabandalag Akraness var stofnað árið 1946.

En hvers vegna var guli liturinn fyrir valinu?, og kemur Dortmund í Þýskalandi við sögu í valinu á litnum?

Skagafréttir leituðu að sjálfsögðu í sagnabrunninn Jón Gunnlaugsson til þess að fá úr þessu skorið. Jón var leiftursnöggur að svara þegar hann var inntur eftir því hvort hann vissi eitthvað um valið á gula litnum.

„Söguna má rekja til ársins 1950 þegar Karl Guðmundsson, fyrirliði íslenska landsliðsins og leikmaður Fram, var í námi í íþróttafræðum í Köln í Þýskalandi,“ segir Jón en Karl hafði þjálfað lið ÍA árið 1948 samhliða því að hann lék með Fram.

„Þessi tenging Karls við ÍA varð til þess að Guðmundur Sveinbjörnsson þáverandi formaður ÍA hafði samband við Karl í Þýskalandi. Guðmundur óskaði eftir aðstoð við að útvega búninga fyrir ÍA. Áður en þessi búningur kom þá lék liðið í hvítum skyrtum og bláum buxum. Á þessum árum mættu leikmenn til leiks í hvítu spariskyrtunum sínum.“

 

Guðmundur hafði þá ósk að fá búninga sem skáru sig frá þeim litum sem voru notaðir af knattspyrnuliðunum í Reykjavík. Rauði liturinn var Valsbúningurinn, sá blái hjá Fram, og KR var með hvítar og svartar rendur á búningunum.

„Karl keypti búninga eins og óskað var eftir. Hann valdi gulan og svartan búning og þannig var liturinn ákveðinn,“ segir Jón.

Skagamenn klæddust þessum búningi fyrst vorið 1951 og þá var komið nýtt merki og urðu Íslandsmeistarar, fyrstir liða utan Reykjavíkur. Á sama tíma og nýji búningurinn kom var merki félagsins líka breytt í það sem enn er notað í dag.

Auglýsing



Auglýsing












„Það er hægt að nota ýsu eða þorsk í réttinn sem nýtur vinsælda á okkar heimili. Þetta er einfaldur réttur og sósan gerir fiskréttinn að sælkerarétti,“ segir Ástþór Vilmar Jóhannsson sem tók áskorun frá Sævari Frey Þráinssyni bæjarstjóra fagnandi. Bæjarstjóri Akraness reið á vaðið í nýjum fréttaflokki á skagafrettir.is. með uppskrift að áhugaverðum kjúklingarétti.

Markmiðið með þessum fréttaflokki er að safna saman bragðgóðum, einföldum og hollum uppskriftum. Með tíð og tíma verður til staðar sarpur af góðum hugmyndum um notkun á hráefnum þar sem að hollusta og bragðgæði eru höfð að leiðarljósi.

Fiskur hefur verið mikilvæg fæða á Íslandi frá upphafi byggðar og fáar þjóðir borða jafnmikinn fisk og við Íslendingar. Neysla Íslendinga á fiski hefur samt sem áður minnkað á undanförnum árum. Ástþór Vilmar Jóhannsson vill stuðla að breytingum á því sviði með þessari frábæru uppskrift af steiktum fiski með súrsætri sósu.

Fiskur er ákjósanleg fæða fyrir margra hluta sakir. Má þar nefna að í fiski er gæðaprótein, neysla á fiski getur dregið úr offitu, fiskur er næringarrík fæða og tvímælalaust ein sú hollasta matvara sem völ er á. Fisk ættum við ekki að borða sjaldnar en 3 sinnum í viku.

Ástþór Vilmar skorar á Ingu Dóru Jóhannsdóttur, systur sína, að taka við keflinu og koma með næstu uppskrift áður en langt um líður.

Pönnusteikt ýsa/þorskur með súrsætri sósu

Hráefni:

600 gr. Ýsa eða þorskur
Hveiti
1-2 egg
Salt
Pipar
Matarolía eða smjör til steikingar

Sósa:

½ l vatn
100gr.sykur
9 msk vínedik
1 msk tómatkraftur
3 msk sojasósa
Maizena-sósu jafnari
100gr sveppir
1 græn paprika
1 rauð paprika
100 gr Laukur
100 gr blaðlaukur
100 gr ananasbitar

  1. Skerið fiskinn í bita og setjið til hliðar
  2. Setjið vatn,sykur,edik,tómatkraft og soyasósu í pott. Hleypið upp suðu og þykkið með maizena-sósujafnara.
  3. Skerið sveppi,lauk,blaðlauk í sneiðar og papriku í strimla(ekki of fínt)
  4. Brúnið sveppi,lauk, blaðlauk,papriku,og ananasbita í matarolíu og bætið út í sósuna. Sósan þarf ekki að sjóða mikið.
  5. Hrærið eggin saman og kryddið hveitið með salti og pipar. Veltið fiskinum fyrst upp úr hveitinu og síðan egginu.
  6. Steikið fiskinn í olíu eða smjöri og rétturinn er tilbúinn.

Meðlæti:

Berið réttinn fram með hrísgrjónum eða kartöflum.
Þessi sósa er einnig sérlega ljúffeng með steiktu kjöti.

http://localhost:8888/skagafrettir/2020/09/04/kjuklinga-pad-krapow-er-vinsaell-rettur-a-heimili-saevars-freys/





Bæjarstjóri Akraness ríður á vaðið í nýjum fréttaflokki á skagafrettir.is. Markmiðið er að safna saman bragðgóðum, einföldum og hollum uppskriftum. Með tíð og tíma verður til staðar sarpur af góðum hugmyndum um notkun á hráefnum þar sem að hollusta og bragðgæði eru höfð að leiðarljósi.

„Þetta er mjög vinsæll réttur á heimilinu en ég fletti upp uppskrift að honum sumarið 2018 þegar fótboltastrákunum var bjargað úr hellinum í Taílandi. Í einni fréttinni kem fram að Pad Krapow með kjúklingi var það fyrsta sem þeir báðu um að borða og ákvað ég að elda þennan rétt þeim til heiðurs daginn sem þeim var bjargað. Þessi réttur með salati dugar auðveldlega fyrir fjóra,“ segir Sævar Freyr Þráinsson.

Sævar Freyr skorar á Ástþór Vilmar Jóhannsson að taka við keflinu og koma með næstu uppskrift en verkefnið er hluti af „Heilsueflandi Samfélagi“ á Akranesi.

Kjúklinga Pad krapow

Hráefni (mæli með að gera hráefni tilbúið fyrirfram því það tekur bara um 12-15 mín að elda):

3 til 4 msk olía

3 chilli fræ hreinsuð og skorin í sneiðar (ég skar smátt. (hef fræin af einu chilli með til að hafa hann bragð sterkari)

3 skallottulaukar, skornir í þunnar sneiðar (ég skar smátt)

5 hvítlauksrif skorin í þunnar sneiðar

600-700 gr kjúklingalæri beinhreinsuð án skinns (set í matvinnsluvél og tæti kjúkling niður í hakk) Ekki henda kjúklingafitu hún bráðnar og gefur bragð)

1 msk sykur (pálma/kókossykur ef til)

3 msk soyasósa

1 1/2 msk fiskisósa

1/2 bolli kjúklingasoð (ég hitaði vatn í örbylgju og leysti upp 1/2 tening)

1 búnt Thai basil lauf (má sleppa og hefur ekki mikil áhrif á réttinn eða nota ferskt venjulegt. Thai basil er til í asísku búðunum í Rvk).

Leiðbeiningar:

Sjóðið hrísgrjón á meðan. Hæfilegur skammtur fyrir fjóra ættu að vera 3 bollar af grjónum. Þarf töluvert með þessum rétt.

Setja stóra pönnu á hæsta hita, bætið við olíu, chilli, skallottulauk og hvítlauk, og steikið í 1-2 mínútur þar til búið að mýkjast og jafnvel farið að brúnast lítillega í endum. Bætið við kjúklinga ”hakkinu” og steikið í um 5 mín þar til farið að brúnast lítillega. Tryggið að kjúklingurinn loði ekki saman og reynið að brjóta niður stærri bita.

Bætið við sykur, soyasósu, og fiskisósu. Steikið í aðra mínútu og jafnvel lengur þar til soð hefur að mestu horfið. Bætið þá út í kjúklingasoði og eldið áfram þar til mest af soðinu er horfið og farið að hjúpa kjúklinginn. Þetta á ekki að taka langan tíma 5-7 mín því pannan er á hæsta hita. Bætið við basil laufum og steikið í stutta stund þar til þau hafa visnað og blandast réttinum.

Berið fram með ríflegu magni af hrísgrjónum í skál þar sem hver og einn bætir ofan á réttinum og soyasósu að smekk hvers og eins.

Pad krapow með hrísgrjónum án salats stendur vel undir væntingum. Ef eldað er fyrir fleiri þá er auðvelt að tvöfalda allt í réttinum en gera þarf ráð fyrir lengri tíma í að sjóða niður vökva.

Asískt salat

70 gr jöklasalat skorið smátt.
70 gr rauðkál skorið í þunnar ræmur.
1/2 appelsínugul papríka (eða rauð eða gul) skorin í þunnar sneiðar.
50 gr gulrætur rifnar eða sneiddar þunnt.
1 vorlaukur skorin í þunnar sneiðar.
1 msk steinselja skorin smátt.
80 gr edamame baunir (fást frosnar belg hreinsaðar í flestum búðum nú orðið).
1 /2 tsk ferskt engifer saxað smátt.
1 hvítlauksrif saxað smátt.
1/2 msk soya sósa.
1 msk hlynsíróp (eða hunang).
1 msk hrísgrjóna edik (eða sítrónusafi).
1 msk extra virgin olívu olía.
1/2 msk ristuð sesam olía.
1 msk sesam fræ (má sleppa).

Leiðbeiningar:

Allt skorna hráefnið sett í skál og blandað vel saman. Fljótandi hráefnum blandað saman og svo sett út í salatskálina og öllu velt saman.

Kær kveðja, Sævar Freyr Þráinsson.



Í dag hófst formleg söfnun í minningarsjóð Arnars Dórs Hlynssonar. „Hjá okkur hjá Sansa verður þannig háttur á að í þessari pöntunarviku, sem stendur fram til miðnættis 10. janúar munu 750 kr. af hverjum matarpakka fara í minningarsjóð Arnars Dórs.

„Arnar Dór Hlynsson var topp náungi en ótrúlega óheppinn með veikindi. Hann kvartaði samt aldrei. Minningarsjóður Arnars Dórs er stofnaður af Sansa, Team ´79 og ÍA. Sjóðurinn mun í framtíðinni styðja við bakið á góðum málum sem tengjast uppáhaldsíþróttum Arnars Dórs,“ segir Þórður Már Gylfason eigandi Sansa við skagafrettir.is.

ÍA mun hafa umsjón með minningarsjóðnum og verður úthlutað úr sjóðnum einu sinni á ári.

„Arnar Dór vinur minn lést þann 14. september 2017, langt fyrir aldur fram. Á þeim tíma var ég að setja fyrirtækið á laggirnar og það gafst enginn tími til þess að gera það sem mig langaði að gera til að heiðra minningu hans. Með hjálp margra þá er þessi minningarsjóðurinn nú til. Árgangur 79 sem Arnar Dór tilheyrði á stóran þátt í þessu ásamt ÍA og foreldrum Arnars Dórs.

Niðurstaðan er sú að minningarsjóður Arnars Dórs mun styrkja þau aðildarfélög ÍA sem hann tengdist. Það eru golf, fótbolti og kraftlyftingar. Arnar Dór var mikill stuðningsmaður knattspyrnunnar, hann var á golfvellinum flesta daga og lyfti lóðum af krafti þess á milli.“

Fyrirtækið Sansa sem Þórður Már setti á laggirnar á Akranesi í fyrra sérhæfir sig í því að útbúa matarpakka fyrir einstaklinga og fjölskyldur. Óhætt er að segja að viðtökurnar hafi farið fram úr björtustu vonum Þórðar.

„Síðasta vika var sú besta frá upphafi, metvika, og ég vona að þessi vika verði ekki síðri til þess að efla minningarsjóð Arnars Dórs. Og að sjálfsögðu er einn af réttum vikunnar uppáhaldsfiskisúpa Arnars Dórs,“ bætti Þórður Már við.

Fyrir þá sem vilja leggja inn á minningarsjóð Arnars Dórs þá er þetta númerið á styrktarreikningnum:

552-14-350047

kt. 670169-2199



Auglýsing



Það er ekkert leyndarmál að Skagamaðurinn Ólafur Þórðarson segir það sem hann meinar – og hann liggur ekki á skoðunum sínum. 

Ummæli Ólafs á ýmsum málum hafa verið til umfjöllunar í fréttamiðlum á landsvísu og vakið mikla athygli.

Á Þorrablóti Skagamanna lék Ólafur stórt hlutverk í skemmtiatriði 1978 árgangsins – og má sjá það hér fyrir neðan.

Ólafur Þórðarson er einn þekktasti knattspyrnumaður Skagamanna fyrr og síðar. Landsliðsmaður til margra ára og lykilmaður í hinu sigursæla liði ÍA sem mokaði inn titlum seint á síðustu öld.

Ólafur snéri sér að þjálfun eftir að ferlinum lauk og undir hans stjórn varð karlalið ÍA m.a. Íslandsmeistari árið 2001.

ÍA hefur ekki náð að landa Íslandsmeistaratitli í mfl. karla frá árinu 2001.

Auglýsing



Auglýsing



Auglýsing



Auglýsing



Auglýsing



Auglýsing





Séra Jónína Ólafsdóttir og Þóra Björg Sigurðardóttir eru nýkjörnir prestar við Garða- og Saurbæjarprestakall í Vesturlandsprófastsdæmi sem biskup Íslands auglýsti til umsóknar í desember s.l.

Kjörið fór fram mánudagskvöldið 17. febrúar s.l. á Akranesi.

Framvegis munu því þrír prestar þjóna í Garða- og Saurbæjarprestakalli og munu þeir allir þjóna þeim sóknum er tilheyra prestakallinu sem eru Akranes, Saurbæjar, Leirár og Innra-Hólmssókn.

Sr. Jónína Ólafsdóttir var kjörin í almennt preststarf en Þóra Björg Sigurðardóttir í preststarf með áherslur á barna- og æskulýðsstarf.

Alls bárust sjö umóknir um störfin en 17 manna kjörnefnd úr héraði valdi þær Jónínu og Þóru Björg úr hópi 4 umsækjenda eftir forval matsnefndar um hæfi umsækjenda sem skipuð var af Biskupi Íslands.

Þess má geta að tveir af sjö umsækendum drógu umsóknir sínar til baka.


Sr. Jónína Ólafsdóttir

Sr. Jónína Ólafsdóttir er fædd 14. ágúst 1984. Hún lauk prófi í guðfræði frá Háskóla Íslands 2017 og BA próf í íslensku með félagsfræði sem aukagrein frá Háskóla Íslands árið 2008.

Á liðnu ári lauk Jónína diplómanámi á meistarastigi í sálgæslu frá Endurmenntunarstofnun HÍ sem og 90 einingum af 120 til MA prófs í guðfræði.

Jónína hefur gengt ýmsum störfum innan kirkjunna frá árinu 2007 en hefur starfað sem settur prestur í Dalvíkurprestakalli frá 1 okt. 2019. Eiginmaður hennar er Eggert Þröstur Þórarinsson og eiga þau tvo syni.


Þóra Björg Sigurðardóttir

Þóra Björg Sigurðardóttir er fædd 25. janúar 1989. Hún lauk prófi í guðfræði frá Háskóla Íslands árið 2019 og BS próf í sálfræði frá Háskóla Íslands 2016. Þóra Björg hefur starfað sem ritari og æskulýðsfullrúi við Grafarvogskirkju frá árinu 2011 en komið að kristilegum störfum frá árinu 2008 m.a. á vegum KFUM&K í sumarbúðunum í Vatnaskógi og Ölver. Þess má geta að Þóra Björg hefur enn sem komið er ekki hlotið vígslu sem prestur. Eiginmaður hennar er Geirlaugur Ingi Sigurbjörnsson. Eiga þau tvö lítil börn og eru búsett á Akranesi.

Eins og áður segir munu þrír prestar þjóna í Garða- og Saurbæjarprestakalli og munu þeir allir þjóna þeim sóknum er tilheyra prestakallinu sem eru Akranes, Saurbæjar, Leirár og Innra-Hólmssókn.

Fyrir er séra Þráinn Haraldsson en hann var kjörin sem sóknarprestur á liðnu ári. Þetta er í fyrsta skiptið sem konur eru kjörnar til prestembæta í Garða – og Saurbæjarprestakalli. Eru því um mikil tímamót að ræða.

Einnig er mjög áberandi hve verðandi prestateymi eru ung að aldri en þau eru öll vel undir fertugu. Það er engu líkarar en að kjörnefnd Garða- og Saurbæjarprestakalls séu að leggja áherslu að yngja verulega upp í sóknarstarfinu á komandi árum.